Finni fagnaði 90 árum og færði Ljósinu rúmar 350 þúsund krónur

Í dag fengum við skemmtilega heimsókn í Ljósið þegar Sigurfinnur Jónsson frá Sauðárkróki leit við ásamt fjölskyldu sinni, og færði Ljósinu rúmar 350 þúsund krónur að gjöf.

Erna Magúsdóttir veitti styrknum viðtöku. Að sjálfsögðu var gætt að metrunum tveimur.

Í lok árs 2016 greindist dóttir Sigurfinns, Elsa Sigurfinnsdóttir, með krabbamein og hefur síðan þá sótt endurhæfingu í Ljósið. Í þakkarskyni fyrir alla þá þjónustu sem Elsa hefur sótt á Langholtsveginn valdi Finni, eins og hann er kallaður af sínu fólki, að afþakka gjafir í tilefni af 90 ára afmæli sínu í mars en bauð þeim sem vildu að styðja við starf Ljóssins.

Líkt og hjá mörgum öðrum þurfti að fresta veisluhöldum en í sumar gafst svo loks tækifæri til að fagna þessu merkisafmæli.

Við þökkum Finna, Maríu, Elsu og Dagnýju fyrir komuna í dag og sendum sérstakar þakkir til allra þeirra sem fögnuðu með Finna og lögðu til Ljóssins.

Kveðja frá Finna til Ljóssins

Kveðja frá Finna til Ljóssins

Ákveðið hefur verið að setja upphæðina í uppbyggingu palls við nýtt húsnæði Ljóssins þar sem við ætlum að koma upp góðu svæði fyrir ljósberana okkar.

Að síðustu óskum við Finni innilega til hamingju með 90 ára afmælið!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.