Að greinast með krabbamein

Stuðningur og endurhæfing við greiningu

Það er oft mikið áfall að greinast með krabbamein og veikindin geta haft margvísleg áhrif á daglegt líf. Ljósið býður upp á fjölbreytta þjónustu og stuðning í kjölfar krabbameinsgreiningar, fyrir þá sem glíma við sjúkdóminn, og aðstandendur þeirra.

 

Hvað er endurhæfing?

Endurhæfing í Ljósinu er sniðin að þörfum hvers og eins. Hún getur falið í sér stuðning, fræðslu, hreyfingu, samveru og margt fleira. Megin markmið endurhæfingar er að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri líðan, efla félagslega virkni, draga úr einangrun og viðhalda lífsgæðum þrátt fyrir veikindi.

 

Hvenær er æskilegt að endurhæfing hefjist?

Það getur verið einstaklingsbundið hvenær fólk velur að byrja sína endurhæfingu en hún getur hafist strax við greiningu. Ljósið hefur safnað sérhæfðri fagþekkingu auk reynslu þeirra sem nota þjónustuna, til að veita viðeigandi stuðning og fræðslu sem nýtast í því stóra verkefni sem veikindi geta verið, bjargráð til að létta róðurinn.

Fagfólk hefur yfirsýn og umsjón með endurhæfingarferli hvers og eins, sem tryggir að einstaklingur fær viðeigandi aðstoð eftir því hvar hann er staddur í sínu sjúkdómsferli.

Í upphafi þjónustunnar er gerð einstaklingsmiðuð áætlun undir leiðsögn iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara (einstaklingsviðtöl eru án endurgjalds), sem er endurskoðuð eftir þörfum. Endurhæfingaráætlun getur falið í sér; að viðhalda færni og bæta líðan meðan á meðferð stendur, að byggja upp líkama og sál í kjölfar meðferðar eða viðhalda færni og lífsgæðum í langtímaveikindum.

Einstaklingsviðtöl bjóða upp á tækifæri til að vinna úr upplifun og tilfinningum þeirra sem takast á við breyttar aðstæður í kjölfar veikinda. Allir sem nýta sér þjónustu Ljóssins fá viðtal, eins og fyrr segir, hjá iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara, og standa einnig til boða viðtöl hjá sálfræðingi, markþjálfa, næringarfræðingi og fjölskyldumeðferðarfræðingi ef þörf er á. Þar að auki er gott samstarf við fagfólk Landspítalans sem kemur einnig með fræðsluerindi í Ljósið.

 

Geta komið fylgikvillar með greiningunni?

Já, reynslan sýnir að fólk getur glímt við margvísleg vandamál í kjölfar greiningar og meðferðar, eins og vanlíðan. Líkamlegir kvillar eins og bjúgur, þreyta og hreyfiskerðing geta fylgt í kjölfarið. Við hvetjum skjólstæðinga okkar til að vera í nánu samstarfi við sinn lækni og ráðfæra sig við hann um þátttöku í endurhæfingu.

Ljósið leggur metnað í að bjóða upp á þjónustu sem byggir á rannsóknum og reynslu. Heilbrigðisstarfsfólk leiðir starfið með það í fyrirrúmi að bæta líkamlega og andlega líðan þeirra sem nota þjónustuna. Þess vegna er gott að leita aðstoðar hjá faglærðum aðilum eins og í Ljósinu, sem hafa þekkingu og reynslu á málefninu.

 

Hvenær má líkamleg endurhæfing byrja?

Líkamleg endurhæfing getur hafist við greiningu. Rannsóknir sýna að hreyfing hefur góð áhrif á lífsgæði almennt. Sá sem greinist getur komið um leið og hann treystir sér til, í viðtal og skoðun hjá sjúkraþjálfurum Ljóssins, nema ef læknir ráðleggur annað. Í Ljósinu eru gerðar nauðsynlegar mælingar og þolpróf, til að meta afleiðingar meðferðar. Líkamleg endurhæfing er nauðsynleg til að viðhalda daglegri orku, auka lífsgæði og vellíðan. Hún dregur úr aukaverkunum og neikvæðum afleiðingum sem meðferð kann að hafa og hjálpar til við að ná upp fyrra þreki eftir meðferð.

 

Er virkni mikilvæg?

Miklar breytingar geta orðið á daglegri iðju við það að greinast með krabbamein. Sumir þurfa að hætta að vinna tímabundið og þá er nauðsynlegt að fá hjálp við að skipuleggja daginn. Iðjuþjálfar Ljóssins eru sérfræðingar í að hjálpa fólki að setja sér markmið til að efla daglega virkni. Þátttaka og virkni í athöfnum sem veita ánægju og gleði geta haft áhrif á líðan og hugsanir, auk þess að auka andlegt úthald.

 

Hverjir geta nýtt þjónustuna?

Allir þeir sem eru 16 ára og eldri geta nýtt endurhæfingartilboðin strax við greiningu, óháð búsetu. Aðstandendur eru einnig velkomnir og er boðið upp á sérhæfð úrræði fyrir aðstandendur frá 5 ára og upp úr.

Fagfólk Ljóssins metur endurhæfingarþörf hvers og eins og þar með tímalengd þjónustunnar, í samstarfi við skjólstæðinginn.