Endurhæfingin

STARFSREGLUR LJÓSSINS VARÐANDI ENDURHÆFINGU OG LENGD ENDURHÆFINGAR

-Uppfært mars 2021

Ljósið er endurhæfingarmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein, auk þess að veita aðstandendum þeirra stuðning. Markmið Ljóssins er að bjóða upp á sérhæfða, einstaklingsmiðaða endurhæfingu í kjölfar greiningar. Fagfólk aðstoðar við að byggja upp andlegt, líkamlegt og félagslegt þrek. Allir nýir þjónustuþegar fara í grunnviðtal hjá fagaðilum þ.e iðjuþjálfum, félagsráðgjafa og sjúkraþjálfara sem fylgja svo einstaklingnum eftir í endurhæfingarferlinu. Endurhæfingarþarfir eru metnar og grunnur lagður að endurhæfingaráætlun sem er endurskoðuð reglulega. Í Ljósinu starfar þverfaglegt teymi sérfræðinga. Má þar nefna, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara (m.a með sérhæfingu í sogæðanuddi), félagsráðgjafa, íþróttafræðinga, sálfræðinga, næringarfræðing, markþjálfa/heilsufræðing, heilsunuddara, snyrtifræðing og listmeðferðarfræðingur og handverksfólk. Auk þess kemur að starfinu fjölbreyttur hópur fagaðila með fyrirlestra, m.a frá Landspítalanum. Fjölbreytt dagskrá endurhæfingarúrræða stendur þjónustuþegum til boða meðan á þeirra endurhæfingu stendur. Má þar nefna; Viðtöl við mismunandi fagaðila, fræðslunámskeið, líkamsrækt, jafningjahópa, heilsunudd, handverk, snyrtingu, fyrirlestrar og fleira. (sjá stundarskrá Ljóssins inná ljosid.is)

 

HVERJIR GETA NÝTT SÉR ÞJÓNUSTU LJÓSSINS:

  • Þeir sem eru orðnir 16 ára og eru nýlega greindir með krabbamein og hafa endurhæfingarþarfir. Ef lengra tímabil er liðið frá greiningu þá eru endurhæfingarþarfir skoðaðar sérstaklega.
  • Aðstandendur krabbameinsgreindra (Allur aldur) geta sótt stuðningsviðtöl og sérhönnuð námskeið.
  • Fólk getur komið á eigin forsendum og ekki þarf beiðni frá lækni.

 

AUKIN AÐSÓKN – NÁNARI SKILGREININGAR:

Vegna vaxandi og aukinnar aðsóknar í endurhæfingu Ljóssins hafa verið unnar nýjar starfsreglur og nánari skilgreiningar til að tryggja flæði í þjónustu og greiða aðgang þeirra sem eru í bráðri þörf fyrir endurhæfingu.   Til að allir fái sömu þjónustu er nauðsynlegt að skilgreina endurhæfingarþarfir og lengd endurhæfingar hjá hverjum og einum. Við teljum bæði faglegt og nauðsynlegt að þeir sem nýta sér þjónustu Ljóssins útskrifist úr þjónustunni þegar endurhæfingarþörfum þeirra hefur verið mætt eins og kostur er. Þegar líður að útskrift er boðið upp á stuðning sem stuðlar að farsælli aðlögun í önnur úrræði ef þörf er á.

HVE LENGI GETUR FÓLK NÝTT SÉR ÞJÓNUSTU LJÓSSINS:

  • Endurhæfingarferlið er einstaklingsbundið en endurhæfingarþarfir eru metnar reglulega með tilliti til útskriftar. Fagfólk Ljóssins útskrifar þjónustuþega úr endurhæfingunni.
  • Starfsemi Ljóssins er skipt upp í endurhæfingarbrautir.  Er þetta gert til að efla faglegt starf og koma til móts við mismunandi þarfir þeirra sem nýta endurhæfinguna. Innan hverrar brautar eru sérhönnuð námskeið og fagaðilar sem stýra brautinni. Þannig geta þjónustuþegar færst á milli brauta í endurhæfingarferlinu eftir því sem við á hverju sinni.