Þjónusta

Fjölbreytt þjónusta í boði

Ljósið er heilbrigðisstofnun með heimilislegu og notalegu yfirbragði. Þjónustan er fjölbreytt og hugsuð fyrir þann sem greinist, og nánustu fjölskyldumeðlimi.

Markmið með þjónustunni er að veita stuðning í kjölfar greiningar, fræða um bjargráð, ýta undir virkni og félagslega þátttöku auk þess að viðhalda andlegu og líkamlegu þreki. Það skiptir miklu máli að horfa heildrænt á einstaklinginn til að batinn verði sem mestur.

Allir sem nýta sér þjónustu Ljóssins koma í viðtöl til iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara, og tengiliður heldur utan um viðkomandi allt tímabilið.

  • Iðjuþjálfi gegnir hlutverki tengiliðs og hefur yfirsýn yfir endurhæfingarþarfir og fylgir þeim eftir.
  • Iðjuþjálfi metur og eflir færni við daglega iðju sem stuðlar að jafnvægi í daglegu lífi. Þörf fyrir þjónustu annarra fagaðila er metin og endurhæfingaráætlun sett saman í samráði við viðkomandi.
  • Viðtal hjá sjúkraþjálfara felur í sér mat á líkamlegri færni og líkamleg endurhæfing er skipulögð. Í boði er að fara í þrekpróf og líkamsmælingar.
  • Fagaðilar sem veita þjónustu í Ljósinu eru m.a. iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, sálfræðingur, fjölskyldumeðferðarfræðingur, næringarfræðingur, markþjálfi, heilsunuddarar og snyrtifræðingur. Auk þess eru aðrir fagaðilar sem sinna sérverkefnum. (Sjá neðar á síðu.)
  • Endurhæfingaráætlun samanstendur af úrræðum sem eru á stundaskrá Ljóssins hverju sinni. Dæmi um úrræði eru viðtöl við fagaðila, handverk, jafningjahópar, líkamsþjálfun, snyrting, opnir fyrirlestrar og námskeið.
  • Fagaðilar vinna saman að því að sinna eftirfylgd og endurmeta endurhæfingarþarfir í samráði við þjónustuþegann.

Viðtöl við fagaðila

Markmiðið með viðtölum við hina ýmsu fagaðila er að þjónustuþeginn fái tækifæri til að ræða um allt er viðkemur þeim breytingum sem verða við veikindi; hlutverk, daglega iðju, fjölskylduhagi og tilfinningalíf. Við hjálpum fólki að setja sér markmið og skoða viðhorf gagnvart því sem skiptir mestu máli í breyttum aðstæðum. Þá er unnið með áföll og sorg sem fylgja óneitanlega oft erfiðum veikindum. Fólk er að meta aðstæður upp á nýtt, skoða gildismat og hvernig það getur haft áhrif á hegðun og framkvæmdavilja með aukinni sjálfsþekkingu. Reynslan sýnir að það er nauðsynlegt að fá að setjast niður með aðila sem kann virka hlustun og hefur verkfæri til að vinna með þau mál sem brenna hvað heitast á þeim sem greinast.

Ljósið veitir líka nánustu fjölskyldumeðlimum viðtöl og stuðning.

Líkamleg endurhæfing

Líkamleg endurhæfing er nauðsynleg til að viðhalda daglegri orku, auka lífsgæði og vellíðan. Hún dregur úr aukaverkunum og neikvæðum afleiðingum sem meðferð kann að hafa og hjálpar til við að ná upp fyrra þreki eftir meðferð.

Sjúkraþjálfunarsalurinn er bjartur og vel tækjum búinn. Þar má nefna InBody-tæki af fullkomnustu gerð, sem metur bjúg, vöðvamassa, beinmassa og innri fitu, svo eitthvað sé nefnt.

Sérhæfð meðhöndlun

Ef líkamleg vandamál hafa komið sem afleiðing af krabbameinsgreiningu eða meðferð, þá metur sjúkraþjálfari einkennin og meðhöndlar það sem við á.

Boðið er upp á sérhæfða meðferð við sogæðabjúg. Sogæðabjúgur er vökvasöfnun vegna skertrar starfsgetu sogæðakerfisins eða vegna aukinnar framleiðslu sogæðavökva. Sogæðanudd er sérhæft nudd sem eykur vessaflæði og eflir virkni eitla og heilbrigðu sogæðanna.

Sérhönnuð námskeið

Markmiðið er að fólk fái fræðslu, umræður og stuðning á jafningjagrunni, til að takast á við breytt lífsskilyrði í kjölfar veikinda. Unnið er markvisst að því að efla lífsgæðin í öruggu og styðjandi umhverfi. Stór hópur fagaðila koma að námskeiðunum.

Jafningjahópar

Í Ljósinu eru starfandi aldursskiptir jafningjahópar fyrir alla. Reynslan sýnir fram á mikilvægi þess að skapa vettvang fyrir fólk sem hefur gengið í gegnum svipaða lífsreynslu, til að koma saman og deila upplifun sinni. Að hitta jafningja, sem hafa innsýn í líðan, hugsanir og þau líkamlegu einkenni sem eru fylgifiskar krabbameins, getur hjálpað til við að takast á við nýjan veruleika. Markmið hópanna er að hafa gaman en á sama tíma að auka úthald og þol í félagslegum aðstæðum, ögra þægindarammanum með nýjum áskorunum, deila reynslu sinni og miðla góðum ráðum, fá ráðgjöf og fræðslu fagaðila auk þess að kynnast skemmtilegu fólki.

Handverk

Þátttaka og virkni í athöfnum sem veita ánægju og gleði, þar sem hugur og hönd fara saman, geta haft áhrif á líðan og hugsanir, auk þess að auka andlegt úthald. Tómstundaiðja sem er innihaldsrík eflir fólk í að hafa stjórn á aðstæðum og hefur jákvæð áhrif á frumkvæði og einbeitingu. Þess vegna er boðið upp á handverk og uppbyggjandi samveru.