Heil og sæl kæru vinir,
Við í Ljósinu fögnum hverri árstíð og förum spennt inn í haustið sem sannarlega hefur sinn sjarma. Haustdagskrá Ljóssins býður uppá mikið úrval af dagskrárliðum, þjónustuþegar okkar ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi. Hér að neðan stiklum við á stóru á því sem í boði er.
Við hvetjum ykkur eindregið til að kynna ykkur dagskrána og skrá ykkur í þá liði sem henta.
Hér má sjá stundaskrá Ljóssins fyrir september.
Samtalið heim
Á námskeiðum í Ljósinu hefur oft verið rætt hversu þarft og gott það væri fyrir þjónustuþega og aðstandendur að vera saman á fræðslu. Sérstaklega þar sem oft er erfitt að yfirfæra upplýsingar og upplifanir heim. Þegar tveir hlusta saman er einnig hægt að ræða fyrirlesturinn þegar heim er komið án þess að þurfa að endursegja hann. Fræðslan fer fram í húsnæði Ljóssins við Langholtsveg en er einnig streymt í gegnum ZOOM. – Lesa meira hér
Fræðsla í streymi
Fræðslan í streymi er fyrst og fremst ætluð fólki á landsbyggðinni og þeim sem hafa ekki tök á að sækja fræðslu í húsnæði Ljóssins að Langholtsvegi. Markmið fræslunnar er að fólk í svipuðum sporum fái fræðslu, taki þátt í umræðum og fái þannig stuðning til að takast á við breytingar í kjölfar greiningar.
Aftur til vinnu eða náms
Námskeiðið er fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og er á leið til vinnu eða náms á ný eftir veikindi. Námskeiðið er liður í endurhæfingu Ljóssins og hentar þeim sem vilja vera betur í stakk búnir til að mæta aftur til vinnu, náms eða nýrra verkefna. Nánari upplýsingar má nálgast hér.
Hefst 26. september 2024, fimmtudagar kl. 14:00-15:45 í 6 skipti.
Umsjón: Guðbjörg Dóra, iðjuþjálfi og Anna Sigga, iðjuþjálfi
Aðstandendanámskeið
Um er að ræða þrjú aðskilin námskeið þar sem skapaður er vettvangur fyrir aðstandendur frá 6 ára aldri til að hittast og ræða um reynslu sína, áhyggjur og þá líðan sem fylgir því að eiga náinn ástvin sem greinist með alvarlegan sjúkdóm. Mikilvægt er að skapa traust og tryggja trúnað til að þátttakendur geti óhindrað tjáð sig um það sem liggur á þeim.
Umsjón: Helga Jóna, iðjuþjálfi og fjölskyldumeðferðafræðingur og Guðrún Friðriks, iðjuþjálfi og náttúrumeðferðarfræðingur
- Námskeið fyrir börn 6-13 ára hefst 18. september – Meira hér
- Námskeið fyrir ungmenni 14-17 ára hefst 1. október – Samstarfsverkefni með KVAN – Meira hér
- Námskeið fyrir fullorðna 18 ára og eldri – Meira hér
Hreyfing og þjálfun
Það verður þétt og mikil dagskrá hjá þjálfurum Ljóssins í haust.
Við sjáum nokkra dagskrárliði mæta aftur á stundaskránna eftir sumarfrí. Þolþjálfunin verður í hádeginu tvisvar í viku. Þol og styrkur byrjar aftur tvisvar í viku, hóptími fyrir unga fólkið 16-45 ára verður tvisvar i viku.
Þá verða sérhæfðir tímar fyrir þau sem hafa farið í skurð vegna brjóstakrabbameins. Í tímunum fræða þjálfarar Ljóssins og kenna hvernig mögulegt er að hámarka hreyfigetu, styrk og vellíðan í kjölfar skurðaðgerða á brjóstum.
Gönguþjálfunin og jafnvægistímarnir verða á sínum stað. Gangan hentar fólki á flestum getustigum og jafnvægistímarnir henta þeim sem finna fyrir truflun á jafnvægi í kjölfar aðgerða eða meðferða.
Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur stundaskránna hér.
Núvitund
Núvitund er lífsfærni sem getur aukið fullnægju í lífinu og skilning okkar í eigin garð. Námskeiðið samanstendur af fræðslu og kennslu æfinga um núvitund, samkennd og góðvild, í eigin garð og annarra. Lesa meira hér
Hefst 11. september 2024, miðvikudagar kl. 13:30-15:30 í 6 skipti.
Umsjón: Guðný Helga Kristjánsdóttir
Handverk
Stór hluti af endurhæfingu Ljóssins er í gegnum handverk og hefur það verið frá upphafi. Við erum vön að segja að listin hafi lækningarmátt og höfum við svo sannarlega séð það gerast hérna. Rannsóknir hafa sýnt að tómstundaiðja getur spilað veigamikið hlutverk í bataferli og aukið heilsu og vellíðan í daglegu lífi. Þátttaka í tómstundaiðju og önnur upplyfting hjá fullorðnum getur ýtt undir sköpunargáfu og andagift auk þess að styrkja félagsleg tengsl.
Í haust er fjöldi námskeiða í boði svo það ættu allir að geta fundið námskeið við sitt hæfi.
- Myndlist fyrir byrjendur og fyrir lengra komna
- Útsaumur, prjón og hekl
- Tréútskurður og tálgun
- Leirlist
- Fatasaumur
Smelltu hér til að lesa nánar um námskeið í handverki.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.