Ungmennanámskeið í samstarfi við KVAN hefst 2. apríl

Ljósið í samstarfi við Kvan, bjóða aðstandendur á aldrinum 14-16 ára velkomin á sérsniðið þriggja skipta námskeið sem hefst 2. apríl.

Námskeiðið er fyrir öll ungmenni frá 14 ára aldri sem eiga aðstandanda sem hefur greinst með krabbamein. Hvernig tengslunum er háttað og hvernig sjúkdómurinn birtist skiptir minna máli en að manneskjan sem skráir sig finnist hún þurfa á námskeiðinu að halda.

Ástæður fyrir að koma á þetta námskeið geta verið fjölmargar en markmið þess er að þátttakendur taki með sér verkfæri til að halda góðu jafnvægi í lífinu og takast á við kvíða, álag og streitu. Á námskeiðinu verða einnig kenndar leiðir til að setja sér markmið og finna út hvernig hægt sé að finna og nýta styrkleika sína.

Skoðanir, markmið og samskipti

Leiðbeinandinn frá KVAN er með viðamikla reynslu í samstarfi með ungmennum og á námskeiðinu verður líka fagaðili frá Ljósinu. Þeim sem skrá sig á námskeiðið er sömuleiðis boðið að taka með sér vin eða vinkonu þannig að þau geti haldið áfram að ræða það sem þau læra á námskeiðinu og tekið fræðsluna með sér heim. Við vonum að námskeiðið gagnist ungmennunum ekki aðeins til þess að takast á við breytingarnar sem koma til vegna krabbameinsgreiningarinnar heldur verði einnig til þess að auka hugrekki þátttakenda til að móta og standa með eigin skoðunum, setja sér markmið og bæta samskipti við bæði vini og fjölskyldu.

KVAN er mennta- og þjálfunarfyrirtæki sem býður upp á alls konar námskeið fyrir unglinga og ungt fólk. Námskeiðum KVAN er ætlað að styðja ungmenni í að byggja upp sjálfstraust og sjálfsmynd þannig að þeim líði vel í eigin skinni og í samfélaginu. Ungt fólk í dag þarf að takast á við mikinn hraða samfélagsins og þarf auk þess að standast álag og kröfur sem fyrri kynslóðir hafa ekki staðið frammi fyrir. Þegar við bætist krabbameinsgreining aðstandanda getur þetta álag orðið enn meira og stundum æxlast hlutirnir þannig að sá sem undirgengst meðferðir líður ekki verst andlega.

Ungmennanámskeiðinu er ætlað styrkja ýmis bjargráð einstaklinganna til að koma til móts við óöryggi sem fylgir veikindum náins aðstandanda og óvissu sem fylgir tímabilum mikilla breytinga. Á þessum aldri eru félagslegu tengslin jafnmikilvæg og tengslin við fjölskylduna þannig að okkur finnst nauðsynlegt að geta boðið þeim sem þau umgangast mest utan fjölskyldunnar að vera með á námskeiðinu. Hópurinn verður þannig blandaður en um leið munu þátttakendur hitta önnur ungmenni sem standa í sambærilegum sporum, geta speglað sig í þeim og talað saman á jafningjagrundvelli.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.