Tölum saman – Fyrirlestur 27. febrúar

Að greinast með krabbamein er fyrir flesta mikið áfall, og eðlilegt að fólk takist á við erfiðar hugsanir í kjölfar greiningar. Á næsta fyrirlestri í fræðsluröðinni Samtalið heim, mun Elín Kristín Klar, sálfræðiráðgjafi í Ljósinu, ræða hvernig streita og erfiðar hugsanir geta herjað bæði á þann sem greinist með krabbamein sem og aðstandendur. Elín settist niður og sagði okkur aðeins frá umfjöllunarefninu og við hverju þátttakendur mega búast þann 27. febrúar næstkomandi.

 

Afhverju þessi efnistök?

Það er mín reynsla af samtölum við þjónustuþega og aðstandendur í Ljósinu að streita og erfiðar hugsanir eru meðal stærstu áskoranna í kjölfar greiningar.

Elín Kristín mun ræða við þjónustuþega Ljóssins og aðstandendur þeirra um samskipti, streitu og erfiðar hugsanir í kjölfar greiningar, á næsta fyrirlestri fræðsluraðarinnar Samtalið heim.

Ég fæ til mín fólk í viðtöl og þar erum við einmitt að tækla þessi viðfangsefni en mér finnst skipta miklu máli að þeir sem greinast með krabbamein fái tækifæri á að eiga samtal og ræða lausnir með sínum aðstandanda, og þessi fræðslufyrirlestur er einmitt kjörinn fyrir það.

 

Upplifa allir erfiðar hugsanir?

Það gefur auga leið að við erum öll misvel í stakk búin til að fara í gegnum storminn sem fylgir greiningunni og mjög persónubundið hvernig einstaklingur bregst við sinni greiningu eða greiningu ástvinar. Sumir segi jafnvel að það sé erfiðara fyrir aðstandendur.

Hugurinn er líklegur til að leiða mann á erfiða staði og vanmátturinn getur verið mikill. Þá er mikilvægt að byrja á að minna sig á að engar hugsanir eru rangar hugsanir, en það er mikilvægt að finna þeim farveg og læra góð ráð til þess að vinna með aðstæðurnar.

Við munum ræða streituna og hvernig hún sýnir sig í þessum aðstæðum. Við ætlum að ræða sorgina sem fylgir krabbameinsgreiningunni en hún er margþætt og getur komið upp á mörgum stöðum í ferlinu. Það er til dæmis algengt að margir upplifi sorg seint í sínu ferli og þá oft gagnvart því að verða ekki aftur eins og þeir voru áður. Krabbameinsgreining er nefnilega reynsla sem er líkleg til að breyta miklu, til dæmis hvað varðar sjálfsmyndina

 

En hvaða lausnir eru til?

Mér finnst samskiptin á milli aðstandanda og þeirra sem greinast vera lykilatriði. Það getur ýtt undir streituna ef samskipti eru ekki í góðum farvegi. Væntingarnar sem við berum til fólksins okkar erubreytilegar en við búumst stundum við einhverju af fólkinu okkar sem við höfum ekki tjáð. Það eru allir að fikra sig í gegnum þetta ferli og því fylgja engar reglur en það verða allir að finna þær sem henta þeim.

Ég mun fjalla um hvaða samskiptaaðferðir þeir sem greinast og aðstandendur þeirra geta nýtt sér til þess að gera þetta tímabil einfaldara. Það er léttara ef allir vita sitt hlutverk. Ef maður veit hvar hver og einn stendur.

 

Eins og rætt er um hér að ofan verður fyrirlesturinn 27. febrúar blanda af fræðslu og samtali svo að allir snúi heim með tól til að nýta sér inn í ferlið framundan. Smelltu hér til að skrá þig.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.