Þakklæti að keppni lokinni

Það var mikil gleði þegar lið Ljóssins tryggði sér annað sætið í Síminn Cyclothon keppninni föstudaginn 25. júní síðastliðinn. Þáttaka Ljóssins undir heitinu Annað en þú heldur er ætlað að vekja unga karlmenn til umhugsunar um hvað endurhæfing inniheldur, hver ávinningurinn er og sýna fram á að endurhæfing er annað en þú heldur.

Karlmenn á aldrinum 16-45 ára eru ólíklegri en aðrir hópar til að sækja endurhæfingu þegar þeir greinast með krabbamein. „Þetta er annað en þú heldur“ er setning sem heyrist oft þegar ungir karlmenn sem sótt hafa endurhæfingu lýsa upplifun sinni á sjúkdómnum og hvernig sé best að vinna með afleiðingar meðferða og aðgerða.

Liðsmenn Ljóssins eru nokkrir af sterkustu hjólreiðamönnum landsins, en þeir settu sannarlega allt sitt í verkefnið, hjartað með í för alla leið. Einstök stemning myndaðist hjá liðinu þegar þeir hjóluðu hringinn í kringum landið. Liðsmenn Ljóssins eru: Auðunn Gunnar Eiríksson, Hafsteinn Ægir Geirsson, Hákon Hrafn Sigurðsson, Ingvar Ómarsson, Jón Ingi Sveinbjörnsson, Kristinn Jónsson, Páll Elís og Þorsteinn Hallgrímsson. Við hjá Ljósinu erum svo sannarlega þakklát fyrir þessa frábæru liðsmenn.

Verkefnið fékk mikinn meðbyr, en allmargir styrktaraðilar komu að verkefninu til þess að það gæti orðið að veruleika. Við þökkum eftirtöldum ómetanlegan stuðning: Askja, Dagsson, Mosfellsbakarí, New Wave, Novator, Sómi, Ölgerðin og Örninn.

Hugleikur Dagsson lagði verkefninu lið með fimm teikningum sérstaklega tileinkuðum hugarfari karlmanna í krabbameinsferlinu. Hárbeittar og fyndnar í senn, en hægt er að nálgast boli með skemmtilegri mynd frá Hugleik á vefverslun Ljóssins. www.ljosid.is.

Að auki sáu meistararnir Ragnar Th. og Svavar Burgundy Þórólfsson um að festa ferlið á filmu, bæði í myndbands og ljósmyndaformi.

Vefsíðan www.annaðenþúheldur.is er heimasíða verkefnisins og hvetjum við alla til að kynna sér þennan mikilvæga boðskap betur.

Ljósið þakkar öllum þeim sem komu að verkefninu innilega fyrir sitt framlag.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.