Það sem þú átt

eftir Elinborgu Hákonardóttur umsjónamann handverks

Elínborg Hákonardóttir

Í aðdraganda jólanna er margt sem við getum gert til að draga úr kostnaði, gert undirbúninginn umhverfisvænni en á sama tíma sýnt ástvinum okkar að við hugsuðum til þeirra, til dæmis með því að verja tíma í undirbúning gjafarinnar. Mig langar því til að leggja fram þrjár hugmyndir í dag sem létta á buddunni og umhverfinu.

Heimagerð plaköt

Plakataskreyttir veggir eru æði sem ekki sér fyrir endann á. Það þarf ekki að eyða miklum fjármunum í að panta slíkt á netinu sem svo mögulegur eigandi á eftir að rekast á á hverju heimili í framhaldinu. Ein hugmynd er því að nýta ónotaðan ramma ef þú átt eða líta á úrvalið í Góða hirðinum og slíkum verslunum. Því næst er að skella sér á netið en þar finnur þú nefnilega ekki bara skemmtilegar verslanir heldur ógrynni af hugmyndum og gerðu það sjálfur leiðbeiningum.

Með einu blaði, pensli og svartri akríl málningu er hægt að skella í einfalda abstrakt línu teikningu sem kemur vel út í ramma og enn betur á vegg. Hér finnur þú tildæmis frábærar hugmyndir.

Gourmet gjafir

Þú ert auðvitað búinn að vera með æði fyrir gríska bláberjajógúrtinu og krakkarnir lifa á rifsberjahlaupinu frá den danske fabrike og því er heimilið fullt af krukkum sem bíða ferðarinnar í endurvinnsluna. Hvernig væri að nýta þær frekar í eitthvað annað svo sem að fylla þær af krydduðum og sykruðum hnetum og möndlum.

Þú getur líka útbúið jólaglöggblöndu eða blandað saman þurrefnum í uppáhaldskökunni þinni og handskrifað uppskriftina ásamt fallegri kveðju.

Kannski átt þú engar krukkur en elskar að baka, þá gæti verið tilvalið að gera nokkrar auka smákökurúllur fyrir einhvern sem dreymir um smakk af leyniuppskriftinni þinni að súkkulaðibitakökum. Pakkaðu því svo smart inn í ísboxin sem eru ekki enn komin út í plastgám.

Endurnýting

Endurnýting og gefa hlutum nýtt líf, það er margt hægt að gera. Saltsteinslampinn sem þú gast ekki átt notalega stund án þess að kveikja á er núna allstaðar fyrir. Besta vinkona þín hefur alltaf verið svo hrifin af honum og hann myndi fara svo vel í stofunni hjá henni – tilvalin jólagjöf!
Ef þú prjónar eða heklar þá getur þú nýtt afgangsgarn í tuskur, pottaleppa, fjölnota bómullarskífur og margt fleira. Mitt allra mesta uppáhald er samt heimagert jólaskraut. Gjöfin sjálf er kannski löngu horfin á braut en á hverju ári hengi ég upp skrautið og minnist þess sem gaf mér það.
Er eitthvað sem þú átt inni í skáp sem þú getur breytt eða endurnýtt á annan hátt?

Nú svo er auðvitað alltaf hægt að gefa gjöf sem gefur með því að styrkja starf sem stendur þér, eða þeim sem gjöfina kemur til að þiggja, nærri hjarta. Á vefnum okkar finnur þú til dæmis ýmsa möguleika.

Með von um yndislega aðventu fulla af ljósi og gleði.
Bogga

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.