eftir Guðbjörgu Dóru Tryggvadóttur, iðjuþjálfa

 

„Ég hlakka svo til …“
„Mikið verður gaman þegar …“
„Vá, hvað verður gott að vera laus við …“

Tilhlökkunin er gjöf og við ættum að vera meðvituð um að virkja hana. Í tilhlökkun er að finna drifkraft, gleðisprota og von. Hún hjálpar okkur að brjóta upp tilbreytingarlitla daga og gerir lífið bærilegra.

Þið, Ljósberarnir sem komið í Ljósið, kennið okkur sem störfum hér svo margt og gefið lífinu lit því við vinnum með ykkur. Þess vegna hlakka ég til að mæta í vinnuna. Í samstarfi leitum við að og drögum fram styrkleika ykkar, oft í erfiðum aðstæðum, setjum markmið og vörðum leiðina. Að stefna að einhverju, að hafa markmið, á að vera tilhlökkunarefni. Það getur verið kvíðablandið að hlakka til og það er eðlilegt en hvað framkallar tilhlökkun hjá þér?

Færum athyglina að tilhlökkuninni
Nýlega talaði ég við hóp í Ljósinu á Zoom. Ég bað þær um að beina athyglinni að því hvort þær væru að hlakka til einhvers og halda svo áfram að hugsa hvað meira væri hægt að setja inn sem tilhlökkunarefni. Það var svo áhugavert og hvetjandi að fylgjast með þeim segja frá og fara á flug.

Dæmi sem konurnar nefndu:
• Fylgjast með súrdeigsvinnslu hjá fullorðnum syni
• Koma til blómaafleggjurum sem henni áskotnaðist
• Fá góðan tíma til að prjóna um helgina eftir vinnuvikuna
• Hitta vinkonuklúbbinn á Zoom og allar koma með eigin veitingar
• Hitta barnabarnið þegar það losnar úr sóttkví og lesa saman bók
• Geta aftur farið að mæta í dagskrárliðina í Ljósinu á Langholtsveginum
• Rækta – setja niður fræ í gróðurpoka á svölunum
• Kaupa nýja bók – nýtt púsl
• Skera út grasker með barnabörnum
• Búa til haustkrans
• Leyfa sér að byrja að undirbúa jólin
• Fara í bíltúr
• Kynna sér hljóðbækur

Gerum plön!

Hvað með stóru viðburðina sem settir voru í bið vegna krabbameinsins? Og vegna veirunnar sem hefur áhrif á allt samfélagið?

Leyfum okkur að hafa þá á dagskránni þrátt fyrir að tímasetningar séu í óvissu. Hugsum um þá og hlökkum til, höldum þeim á lofti og gerum plön. Það má breyta dagsetningum en það er svo gaman að tala um þá, skiptast á hugmyndum um hvernig við eigum að hafa hlutina.

Hver veit nema að nýjar hugmyndir fæðist sem geri það að verkum að viðburðurinn verður enn skemmtilegri og innihaldsríkari þegar raunhæft verður að halda hann: veisla, ferðalag, nám, hvað sem er!

Höfum kjark til að plana aftur

Það eru auðvitað vonbrigði þegar við höfum hlakkað til einhvers sem er frestað eða blásið af en látum það ekki taka frá okkur vonina. Vonbrigði mega ekki svipta okkur kjarkinum til að búa til nýtt tilhlökkunarefni eða setja þetta gamla aftur á dagskrá, já, jafnvel aftur og aftur, ef það skiptir okkur miklu máli.

Ég hlakka til í dag því að …
Ég hlakka til eftir viku þegar …
Ég hlakka til í næsta mánuði þá kemur …
Ég hlakka til eftir hálft ár …
Ég hlakka til eftir 2 ár …

Njótum þess að hlakka til. Aðdragandinn, tíminn fram að viðburðinum sjálfum er líka dýrmætur og er stór hluti af honum.

Skemmtum okkur á tilhlökkunarferðalaginu.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.