Hvað gerist þegar þú ferð í nálastungur og nudd?

eftir Brynju Árnadóttur

Brynja Árnadóttir

Í líkama þínum eru 14 orkubrautir sem á eru margvísleg svæði eða punktar. Þegar stungið er í þessa punkta hefur það áhrif á flæðið í þeirra orkubraut sem punkturinn er staðsettur á. Fleiri orkubrautir tengjast svo þessum aðabrautum en þær hafa þó ekki sína eigin punkta.

Stærsta rásin er blöðrubrautin en hún liggur frá höfði, niður eftir bakinu og endar í litlu tánum. Á þeirri braut eru punktar á bakinu sem hafa bein áhrif á orku líffæranna.

Með nálunum er ég að losa um orkustíflur því orkustíflur valda pirringi, verkjum og jafnvel doða. Að auki er hægt að styðja við orku líffæranna með því að stinga í punktana á bakinu sem tengjast líffærunum. Ég geri það stundum til að styðja við þau líffæri sem eru undir mestu álagi þegar fólk er í lyfjameðferð. Þá er ég aðallega að tala um nýru og lifur.

 

Áhrif meðferða margvísleg

Ég hef séð aukaverkanir af lyfjameðferðum eins og fótadoða og brenglaða skynjun í höndum og fótum, sem geta gengið mjög hægt til baka. Í sumum tilfellum hefur tekist að hafa áhrif og flýta þessum bata með nálastungum.

Ég mæli eindregið með að forðast kalda potta ef þið eruð að glíma við slíkar aukaverkanir því það getur aukið á óþægindin.

Nálastungur eru mjög gagnlegar við ýmsum kvillum eins og vöðvabólgu og höfuðverk, fótapirringi, mígreni og svo margs konar líkamlegri og andlegri vanlíðan.
Heilsunudd í bland við nálastungur
Í heilsunuddinu er ég ekki að vinna mikla stoðkerfisvinnu heldur nudda ég í mesta lagi upp að sársaukamörkum, en legg líka áherslu á hendur og fætur því þar mætast svo margar orkubrautir. Þetta er svona heildrænt slakandi heilsunudd og leitast ég við að tengja saman allan kroppinn. Þessi djúpa slökun sem fæst með svona nuddi hefur mikinn heilunarmátt, sérstaklega þegar svefninn hjá fólki getur verið allavegana þegar tekist er á við lífsreynslu eins og í og eftir krabbameinsmeðferð.
Ég mæli með því að nudda sjálf iljarnar því þar eru svo mörg viðbragðssvæði fyrir allan líkamann. Eða þið gætuð fengið einhvern á heimilinu til að nudda ykkur. Endilega kíkið einnig á myndbandið á Youtube, Brynja bankar og nuddar, en þar útskýri ég aðeins svæðanuddið.
Hlakka til að sjá ykkur aftur þegar aðstæður leyfa.
Kær kveðja,
Brynja

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.