Í dag, föstudaginn 28. ágúst, var stigið mikilvægt skref í að bæta endurhæfingarferli krabbameinsgreindra á landsbyggðinni, með undirritun samnings samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis við Ljósið um fjarheilbrigðisþjónustu í endurhæfingu krabbameinsgreindra.
Þau sem greinast með krabbamein og eru búsett á landsbyggðinni hafa hingað til í litlum mæli haft kost á að nýta sér þjónustu Ljóssins, enda er hún eins og sakir standa nær eingöngu aðgengileg í húsnæði Ljóssins að Langholtsvegi í Reykjavík.
Samningurinn hljóðar upp á 34 milljónir króna og hefur það að markmiði að veita fólki með krabbamein, sem búsett er á landsbyggðinni, og aðstandendum þeirra þjónustu með rafrænum hugbúnaði og bæta aðgengi íbúa um land allt að starfsemi Ljóssins.

Við undirritun samningsins í dag
Styrkurinn er veittur á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins en ein af aðgerðum hennar er að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Samningurinn er í takt við áherslur í heilbrigðisstefnu stjórnvalda um að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu með innleiðingu á fjarheilbrigðislausnum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Elsa. B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu og Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins, undirrituðu samninginn í dag í húsakynnum Ljóssins við Langholtsveg.
„Það er afskaplega þýðingarmikið að íbúar á landsbyggðinni eigi tækifæri á að nýta sér endurhæfingarþjónustu Ljóssins til viðbótar við heilbrigðisþjónustu heima í héraði. Starfsfólk Ljóssins hefur unnið ómetanlegt starf á síðustu fimmtán árum og fyrir það ber að þakka,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Aukin fagleg þjónusta
Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára og munu fjármunirnir gera sérfræðingum Ljóssins kleift að auka faglega þjónustu í gegnum fjarfundabúnað og efla samvinnu við aðra fagaðila á landsbyggðinni.
Ljósið hefur frá stofnun lagt metnað í að aðlaga þjónustuna að þörfum notenda og hefur nú með samningnum verið gert kleift að auka faglega þjónustu sérfræðinga sinna til íbúa landsbyggðarinnar í gegnum fjarfundabúnað. Auk þess verður leitast við sem mestri samvinnu fagaðila á landsbyggðinni.
„Samningurinn er mikilvægt skref í að bæta endurhæfingarferli krabbameinsgreindra um allt land. Þeir sem greinast með krabbamein og eru búsettir á landsbyggðinni hafa aðeins í litlum mæli átt kost á að nýta sér þjónustu Ljóssins hingað til,“ segir Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins.
Ljósið fagnar 15 ára afmæli
Ljósið, sem fagnar 15 ára afmæli í ár, er heilbrigðisstofnun með heimilislegu og notalegu yfirbragði. Þjónustan er fjölbreytt og hugsuð fyrir þann sem greinist, og nánustu fjölskyldumeðlimi.
Markmið með þjónustunni er að veita endurhæfingu í kjölfar greiningar, að viðhalda andlegu og líkamlegu þreki, fræða um bjargráð, ýta undir virkni og félagslega þátttöku.
Í Ljósinu starfar þverfaglegt teymi sérfræðinga og má þar nefna iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, íþróttafræðinga, sálfræðinga, markþjálfa, næringarráðgjafa og fleiri sem munu koma að verkefninu.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.
You must be logged in to post a comment.