Uppbyggilegt hugarfar

eftir Sigrúnu Þóru Sveinsdóttur

Á þessum tímum þar sem umhverfi flestra minnkar og viðvera eykst með eigin hugsunum getur verið auðvelt að detta í neikvæðar og erfiðar hugsanir. Nú reynir á að hafa jákvæð áhrif á það sem við höfum stjórn á, þ.e. hvaða viðhorf og hugsanir við höfum um aðstæður okkar í dag. Við erum ekki að tala um að stinga höfðinu í sandinn og horfast ekki í augu við aðstæðurnar eins og þær eru í dag. Heldur að æfa sig í því á hverjum degi að velja uppbyggilegar hugsanir. Uppbyggilegar hugsanir sem efla andlega þrautseigju okkar í þessum aðstæðum. Það er vel þess virði, í stað þess að leyfa huganum og athyglinni að baða sig í neikvæðum hugsunum sem getur verið mjög auðvelt að gera á þessum tímum.

Okkar val
Það er svo margt í kringum okkur núna sem býður upp á neikvæðar hugsanir og vanlíðan. En það er val okkar að ákveða hvaða viðhorf við höfum í þessu ástandi og hvaða hugsanir við veljum. Eins og Viktor Frankl sagði, sem lifði af útrýmingarbúðir Nasista:

“Between stimulus and response, there is space. In that space is our power to choose our response. In our response lies our growth and our freedom.”

Viðhorf okkar og hugsanir eru mikilvægur þáttur sem við getum haft áhrif á, sem hefur bein áhrif á líðan og hegðun. Það liggur því mikið tækifæri í að hafa áhrif á líðan og andlega heilsu með því að þjálfa uppbyggilegt hugarfar. Það er hægt að gera með því að fylgjast reglulega með og skrá niður hugsanir sínar yfir daginn og æfa sig síðan í því að skora á þessar neikvæðu hugsanir og finna uppbyggilegri hugsanir í staðinn.

Hér eru skref sem þú getur fylgt:

  1. Settu áminningu í símann þinn á ákveðnum tíma, 2 x á dag t.d. kl. 11:00 og 15:00 og á þessu tímum skráir þú niður í símann þinn, á blað eða í dagbók:
    A) Hvað þú ert að gera, B) Hvað þú ert að hugsa og C) Hvernig þér líður.
    Gerðu þetta í 2- 3 daga.
  2. Haltu áfram með skref 1, þ.e. 2 x á tilsettum tíma skráir þú: A), B) og C) niður en nú bætirðu við D) Að skora á neikvæðar hugsanir og finna aðra uppbyggilegri hugsun. Gerðu það í ca. 5-7 daga og síðan getur þú gert það að daglegum vana.
  3. Ef þú lendir í mjög neikvæðum hugsunum sem þú átt erfitt með að skora á eða breyta, finndu þér þá heilbrigða truflun sem kemur þér úr huganum og í verkið.
    Mundu að gefast ekki upp þótt það geti erfitt að breyta um hugsanir, þetta getur tekið tíma og þrautseigju en er algjörlega þess virði.

Þessi aðferð er í andlegri heilsulausn Proency, bæði í gegnum „hugsanir og viðhorf” og í andlegu þjálfuninni: ,,Andleg þrautseigja.”
Allir skjólstæðingar Ljóssins hafa aðgang að andlegu heilsulausninni sem þeir geta fengið aðgang að með því að hafa samband við starfsfólk Ljóssins, t.d. í síma: 561 3770.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.