Á tímum þegar daglegum venjum er snúið á hvolf

Guðrún Áslaug Einarsdóttir, Rúna, iðjuþjálfi í Ljósinu

Öll höfum við okkar föstu venjur í daglegu lífi. Sumar tengjast heimilinu en aðrar því sem við gerum fyrir utan heimilið.

Eins og staðan er í dag er jafnvel búðarferðin farin að taka á sig nýja mynd. Margir eru að panta vörur af netinu og fá sent heim. Allavega er ekki reiknað með því að fjölskyldan fari saman í verslunarferð sér til yndisauka heldur að einn úr hópnum sé sendur með lista.

Margs konar frístundastarf fellur niður næstu vikur og fjölskylduhittingar taka á sig aðra mynd en áður. Heimilislífið er líka að breytast því fleiri eru að vinna heima og skólar eru að loka.

Fyrir flesta eru afleiðingar Covid 19, óreiða í daglegu lífi. Því fyrr sem við náum að aðlagast nýjum veruleika því betra. Sem iðjuþjálfar aðstoðum við fólk við að endurskipuleggja hversdagslífið. Bæði vegna breyttrar heilsu og minnkandi færni.

Hér koma nokkrir punktar frá okkur iðjuþjálfunum í Ljósinu.

1. Leggðu áherslu á að finna jafnvægi í daglegu lífi.

Núna þegar fleiri og fleiri daglegar athafnir fara fram á heimilinu er gott að endurskoða jafnvægið á milli skyldustarfa, áhugamála og hvíldar. Sum ykkar hafa komið í Ljósið oft í viku og nú þegar það fellur niður þá er spurning um að aðlaga hlutina. Sumt af því sem þið gerið hér getið þið e.t.v. gert inn á heimilinu ykkar þó það sé í öðru formi. En þá er mikilvægt að muna líka eftir hvíldinni og finna jafnvægið milli þess að sinna því sem þarf að gera og því sem ykkur langar að gera, þó svo að allt fari fram innan heimilisins.

2. Haltu í daglegar venjur eins og mögulegt er.

Á tímum breytinga getur verið áskorun að halda fast í daglegar venjur eins og t.d. að fara á fætur á svipuðum tíma og áður. Almennt er gott ráð að halda sömu venjum eins og hægt er varðandi svefn og máltíðir. Það rammar inn daginn og ýtir undir betri heilsu.

3. Gerðu eitthvað skemmtilegt á hverjum degi.

Til að vinna á móti áhyggjum og kvíða er mikilvægt að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi. Að gleyma sér í einhverju sem gefur gleði og orku er gott fyrir heilsuna. Hvort sem það er með öðrum eða við ein með sjálfum okkur. Hægt er t.d. að taka upp gamlar tómstundir eða þá læra eitthvað nýtt.

Það sem við gerum yfir daginn, skilgreinir okkur sjálf og hlutverk okkar. Nú er tíminn til að endurskilgreina, finna nýja farvegi og hlú að okkur sjálfum og þeim sem okkur þykir vænt um.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.