Tilgangur og vellíðan – Hvað skiptir þig mestu máli? | Pistill frá Sigrúnu Þóru Sveinsdóttur sálfræðing

Það er dýrmæt stund á námskeiðum hjá mér í Ljósinu, þar sem við förum saman í gegnum aðferðir sem efla og bæta andlega heilsu.

Áhuginn og viljinn til að bæta sig og læra skín skært frá þátttakendum námskeiðanna. Um leið og við tökum umræðustund eða förum í aðferðirnar í tímunum er fólk tilbúið í slaginn og það er alltaf jafn erfitt að hætta, sem er æði.

Orkan í salnum er örugglega mælanleg í voltum.

Ef tekinn er einn rauður þráður frá námskeiðunum þá er hann sá að við getum haft áhrif á okkar eigin heilsu. Með vísindalega viðurkenndum aðferðum förum við saman í gegnum þessar leiðir og í þessari samverustund þá iðkum við þessar aðferðir saman. Þessi stund er mögnuð. Að fá að vera í kringum fólk sem er tilbúið til að hafa jákvæð áhrif á eigin andlega heilsu er dásamlegt. Það er alltaf eitthvað sem við getum gert til að hafa jákvæð áhrif á eigin heilsu.

Á námskeiðunum vitna ég oft í Viktor Frankl en hann er einn af þeim sem lifðu af útrýmingarbúðir nasista. Í gegnum þá reynslu uppgötvaði hann hversu mikill kraftur liggur í því að hafa tilgang í lífi sínu. Hann vitnar í Friedrich Nietzsche í tilvitnun sem er vert að nefna hér:

“He who has a Why to live for can bear almost any How.”

Þetta er öflug setning sem minnir mann á mikilvæga aðferð sem við getum nýtt okkur á hverjum degi í lífinu okkar. Það er að spyrja sig hvað skiptir mestu máli í lífinu og af hverju? Það er, hver er tilgangurinn í lífi okkar.

Þetta er spurning sem er auðvelt að líta fram hjá. En með því að staldra við reglulega og spyrja sig ,,Hvað skiptir mig mestu máli og af hverju?” getum við haft jákvæð áhrif á eigin andlega heilsu og að sjálfsögðu hjálpað okkur að einblína á það sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif þess að hafa tilgang í lífinu, þ.e. þær hafa sýnt fram á það að fólk sem hefur tilgang lifir lengur, er heilbrigðara, ólíklegra til að falla frá vegna sjúkdóma og ólíklegra til að upplifa depurð.

Fólk sem hefur sterkan tilgang í lífinu, almennt, gengur betur félagslega heldur en þeir sem hafa hann ekki. Þau upplifa meira kynlífi, sofa betur, eru ólíklegri til að upplifa þunglyndi, eru rólegri og eyða færri tímum á spítala.

En hvernig greinum við tilgang okkar?

Það er því óhætt að segja að ávinningurinn er mikill umfram það að við hjálpum okkur að sjá hvað skiptir mestu máli og að eyða orku og tíma í það. Það má hjálpa sér að skilgreina tilgang sinn með því að:

Skoðaðu það sem skiptir þig máli

Byrjaðu að greina hvaða megin svið í lífinu skipta sig mestu máli frá 0 – 10. Þetta gætu verið til dæmis fjölskylda, menntun, heilsa, áhugamál, persónulegur þroski, atvinna o.s.frv. Sjáðu svo hversu miklum tíma þú hefur varið á þessum sviðum frá skalanum 0 – 10. Í lokin getur þú borið saman tölurnar og í kjölfarið ákveðið hvað þú getur gert til að einblína meira á þau svið sem skipta þig máli.

Smelltu hér til að sækja blað sem þú getur prentað út og fyllt út heima.

Skoðaðu gildin þín

Fara í gegnum orðalista af gildum. Hér eru nokkur dæmi:

  • Afrek
  • Samfélag
  • Sköpunargáfa
  • Ánægja
  • Sjálfstæði
  • Góðmennska
  • Sambönd
  • Orðspor
  • Ábyrgð
  • Öryggi
  • Sjálfstjórn
  • Andleg málefni
  • Hefðir
  • Lífsorka

Finndu 3 – 6 gildi sem skipta þig máli (þurfa ekki að vera á þessum lista hér fyrir ofan) og svo það mikilvæga að skrifa hjá sér ,,af hverju skipta þessi gildi máli fyrir þig?”.

Næsta námskeið af Þrautseigju og innri styrk hefst 2. mars – Skráning er hafin í móttöku Ljóssins.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.