Hluti rekstrar Ljóssins tryggður með samningi við Sjúkratryggingar Íslands

Brynjólfur Eyjólfsson stjórnarmaður í stjórn Ljóssins, Erna Magnúsdóttir forstöðukona Ljóssins og Guðlaug Björnsdóttir frá samningadeild Sjúkratryggingum Íslands.

Mikilvægt skref í að bæta endurhæfingarferli krabbameinsgreindra unnið með samningi Ljóssins við Sjúkratryggingar Íslands.

Í upphafi 15. starfsárs Ljóssins deilum við þeim gleðifréttum að Erna Magnúsdóttir forstöðukona Ljóssins og Guðlaug Björnsdóttir frá samningadeild Sjúkratrygginga Íslands hafa skrifað undir samning um endurhæfingarþjónustu til einstaklinga 16 ára og eldri sem greinast með krabbamein. Í dag, 9. janúar, var samningurinn staðfestur af Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra og Maríu Heimisdóttur, forstjóra SÍ.

Samningurinn gildir frá upphafi árs 2020 og út árið 2023 og markar mikil tímamót fyrir Ljósið en með honum er rekstrarfé tryggt og þjónustan og umgjörðin skilgreind í heildstæðum samningi.

„Eftir 14 ár af heimsóknum í ráðuneyti og leit að fjármagni frá ríkinu getum við loksins horft til framtíðar í endurhæfingu krabbameinsgreindra á Íslandi“ segir Erna Magnúsdóttir forstöðukona Ljóssins. „Næstu ár munu einkennast af meiri stöðugleika og við getum einbeitt okkur af meiri þunga að endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein og stuðning við aðstandendur þeirra. Verkefnin eru mörg og brýn og samningurinn því mikilvægt skref í að bæta ferli krabbameinsgreindra.“ bætir Erna við.

Þurfum áfram á stuðningi samfélagsins að halda

Frá flutningi nýs húsnæðis á lóð Ljóssins í byrjun desember 2019 – Mynd: Ragnar Th.

Þrátt fyrir þessar yndislegu fréttir þá falla ekki allar hliðar starfsseminnar undir samninginn. Þetta eru til að mynda viðamikla húsnæðisverkefnið sem við vinnum hörðum höndum að í augnablikinu en þrátt fyrir stækkun með yndislegu framtaki Oddfellowreglunnar árið 2015, þá var ljóst að þrengslin væru orðin of mikil. Eftirspurnin eftir þjónustunni er mikil og núna eru um 450 manns í þjónustu hjá okkur í hverjum mánuði. Við réðumst því í það stóra verkefni að festa kaup á flytjanlegu húsi sem í byrjun desember var flutt á lóð Ljóssins að Langholtsvegi 47. Með þessari stækkun verður betri aðstaða til líkamsræktar, sjúkraþjálfunar og einkaviðtala við fagaðila fyrir allan þann fjölda sem til okkar leita.

Til að standa straum af öllum kostnaði hvað varðar nýja húsnæðið; kaupum, flutningi og vinnu við að koma því í sem allra besta horf svo vel fari um Ljósberana okkar þá höfum við notast við gjafafé.
Við leitum því enn eftir stuðningi þjóðarinnar, Ljósavina og allra okkar velgjörðarfélaga og fyrirtækja við þau verkefni sem samingurinn nær ekki yfir.

Við erum ótrúlega þakklát öllum þeim sem hafa styrkt Ljósið.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.