Hlauparáð Guðrúnar Erlu þjálfara í Ljósinu og langhlaupara

Sumarið er komið og margir búnir að reima á sig hlaupa og/eða gönguskóna og jafnvel búnir að setja sér eitthvað markmið fyrir sumarið. Það er svo gaman að sjá stígana fyllast af fólki á öllum aldri að ganga,skokka, hlaupa og hjóla. Hvort sem fólk hefur sett sér markmið eða ekki er gott að hafa í huga að með útiveru ertu að leggja rækt við líkama og sál og það er það allra mikilvægasta.

Mig langar til að fara yfir nokkur atriði sem skipta mestu máli þegar þú ætlar út að ganga eða hlaupa.

Markmið: Settu þér markmið við hæfi. Í byrjun er best að setja sér markmið varðandi tíma frekar en vegalengd þ.e. reyndu að hlaupa t.d. í 15 til 30 mín. Byrjaðu t.d. á því að ganga rösklega/skokka í 2 mín og rólega í 1 mín og endurtaka þetta nokkrum sinnum. Bættu svo hægt og rólega við tímann sem þú ert í álagi. Einnig er gott að styðjast við forrit eins og FCT5k.

Góðir skór: Góður skóbúnaður er það allra mikilvægast hvort sem þú ætlar að hlaupa eða ganga. Það er einstaklingsbundið hvaða skór henta hverjum þannig að ég legg áherslu á að fara og máta mismunandi tegundir og finna hvað hentar best.Vandaðu valið og mundu að það er ágætt að  taka hlaupaskó í aðeins stærra númeri en venjulega skó. Ef verið er að ganga/hlaupa mikið utanvega þ.e. ekki á malbiki mæli ég alltaf með góðum utanvegaskóm með grófum botni.

Réttur klæðnaður: Við höfum öll heyrt að það er ekki til vont veður heldur bara rangur klæðnaður og það er mikið til í því.  Góður vind- og regnheldur jakki er nauðsynlegur í sumarveðrinu hjá okkur. Við viljum samt passa að klæða okkur ekki of mikið sérstaklega ef þú ætlar að fara út að hlaupa. Ágætis regla er að þér á að vera pínu kalt þegar þú leggur af stað á æfinguna því þér hitnar um leið og þú byrjar að hreyfa þig.

Góð næring: Það er nauðsynlegt að næra sig vel og er það óháð því hversu langt þú ferð eða lengi þú ætlar að hreyfa þig. Borða úr öllum fæðuflokkum, passlega mikið á diskinn og muna eftir vatninu. Ef þú ert að fara út að hlaupa láttu líða amk 1 klst frá því þú borðar og þangað til þú ferð út að hlaupa.

Hvíld: Það er nauðsynlegt að passa uppá hvíldardaga. Ef þú ert að fylgja t.d. hlaupaplani þá skaltu fylgja því og ekki bæta við hlaupum á hvíldardögum, farðu frekar í rólegan göngutúr til að forðast ofálag. Þumalputtarreglan í hlaupum að þú átt ekki að auka álagið á milli vikna nema um 10% !

Góða skapið: það er það allra mikilvægasta, farðu í þá hreyfingu sem þér finnst skemmtileg því þá er líklegra að þú haldir því áfram. En mundu líka það að ef þú ert dapur, þreyttur eða ósáttur þá getur hreyfing verið mögulega það besta sem þú þarft á að halda akkurat núna. Ég hvet ykkur líka til að finna hóp t.d. gönguþjálfunina hjá okkur eða jafnvel hlaupahóp því þar er svo frábær félagsskapur sem gerir svo mikið fyrir okkur.

Mig langar til að hvetja ykkur til að setja ykkur markmið fyrir sumarið. Hvort sem það er að hlaupa einhverja ákveðna vegalegd í lok sumars eða það að fara í göngu 2-3 x í viku þá er það hvetjandi að fylgja því eftir og standast það að lokum.

Einnig vil ég minna ykkur á að ef ykkur vantar ráð eða pepp fyrir æfingarnar í sumar þá endilega mætið í gönguþjálfunina sem er á þriðjudögum og fimmtudögum kl 11:00. Sá hópur er fyrir alla óháð því hversu langt þú stefnir í göngu eða hlaupum – Allir fá æfingar við sitt hæfi – Hlökkum til að sjá ykkur!!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.