Óteljandi tónar úr örfáum litum – Innlit í myndlist í Ljósinu

Það myndast sérstök stemning í litagleðinni í myndlistartímum í Ljósinu og margir eignast sínar fyrstu trönur eftir eftir að hafa sótt endurhæfingu í Ljósið í kjölfar krabbameinsgreiningar. Frá upphafi hefur stór hluti endurhæfingarinnar verið í gegnum handverk og list. Það hefur löngum verið sagt að listin hafi sannan lækningamátt en því til viðbótar sýna æ fleiri rannsóknir fram á að tómstundaiðja getur spilað veigamikið hlutverk í bataferli, og aukið heilsu og vellíðan í daglegu lífi.

Í tilefni Alþjóðlegs dags listarinnar (e. World Art Day) fannst okkur kjörið að varpa smá ljósi á myndlistina í Ljósinu.

 

Margvísleg myndlistarnámskeið eru í boði hjá Ljósinu bæði fyrir byrjendur og lengra komna. 

Í Ljósinu starfa tvær listakonur sem leiða námskeiðin en það eru þær Rósa Sigrún Jónsdóttir, myndlistarkona, og Sara Vilbergs, myndlistakona, sem hjálpa fólki að nýta liti og form til að vinna úr og með það sem í gangi er í lífi hvers og eins í krabbameinsferlinu.

„Nú erum við að læra undirstöðuatriði í litafræði með skemmtilegum æfingum þar sem blandaðir eru óteljandi litir og tónar úr örfáum litum. Síðan er farið í æfingar sem leiða til sameiningu lita og forma og í framhaldinu teygja verkefnin sig í margar áttir og dýpka með einföldum máluðum uppstillingum.“ segir Rósa okkur frá þegar við litum inn í handverkssal í vikunni sem leið.

Námskeiðið sem um ræðir er byrjunarnámskeið sem er 6 vikur en þar mætast einstaklingar með ólíkan bakgrunn og mismikla þekkingu á myndlist sem eiga það þó sameiginlegt að vilja leyfa sköpuninni vera hluta af endurhæfingu eftir greiningu krabbameins. Lögð er áhersla á afslappað og skapandi andrúmsloft eins og greinilega má skynja en það er létt yfir hópnum og greinilegt að þátttakendur eru að njóta sín í listsköpuninni.

„Ég hafði ekki sest niður með pensil í hönd frá því ég var barn en ég á nú eflaust eftir að fara á fullt heima líka“ fáum við að heyra frá hressri konu sem augljóslega er búin að finna sína hillu strax.

 

Skissubækurnar frábært verkfæri í myndsköpun

Æfingarnar sem lagðar eru fyrir hópinn eru unnar í skissubók þar sem öllu er haldið til haga á sama stað, en á sama tíma nýtast þær sem hugmyndabanki, vinnusvæði, hugleiðslustaður og minnispunktageymsla. Þegar við göngum um salinn má sjá að bækurnar eru að breytast í sannkölluð listaverk og hópurinn er farinn að tengjast skemmtilegum böndum. Það má því kannski vera að það verði ekki einungis listsköpunin sem standi eftir að námskeiði loknu heldur mögulega einnig vinskapur inn í framtíðina.

Við þökkum Rósu og hópnum öllum fyrir að leyfa okkur að kíkja aðeins inn í tímann, og vonum að sem flestir þjónustuþegar Ljóssins láti tækifærið til að skapa óteljandi tóna ekki framhjá sér fara.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.