Færðu Vökudeild heklaða kolkrabba í hitakassa fyrirbura

Hluti prjónahópsins með afrakstur vinnunnar

Prjónahópur úr Ljósinu hefur síðustu mánuði heklað kolkrabba fyrir fyrirbura á Vökudeild barnaspítala Hringsins. Í gær afhentu fulltrúar Ljóssins Sigríði Maríu Atladóttur, deildarstjóra Vökudeildar afraksturinn.

Þátttakendur í verkefninu eru hópur sem hefur áhuga á prjónamennsku og fær út úr því ánægju og vellíðan við að búa til eitthvað frá grunni í höndunum. Þau gleyma stað og stund í góðum félagsskap á meðan þau vinna markvisst að einhverju sem fer svo áfram beint út í samfélagið. Prjónahópurinn hittist í Ljósinu á miðvikudögum á milli 9:00 – 12:00 og vinnur þá oft að samfélagslegum verkefnum.

„Það gefur þeim tilgang að skapa eitthvað og gefa til baka“, segir Louisa Sif Mønster, iðjuþjálfi hjá Ljósinu sem leitt hefur verkefnið. „Það er hluti af þeirra endurhæfingu og hópurinn fyllist stolti að sjá loka niðurstöðuna renna beint til þeirra sem hennar njóta. Í febrúar var ákveðið að vinna fyrir vökudeild en það gerir mikið fyrir hópinn að vinna að sameiginlegu markmiði og gefa um leið til baka til samfélagsins. Það sem er svo magnað við hönnunina sem við unnum með fyrir Vökudeild er að armarnir á kolkrabbanum minna á naflastrenginn og geta fyrirburarnir fiktað í honum líkt og þeir eru vanir að gera í móðurkviði. Þá koma kolkrabbarnir einnig í veg fyrir að þeir séu að fikta í öllum þeim snúrum sem umlykja þá í hitakassanum.“

Við segjum frá verkefninu og heimsókninni í myndskeiði á Instgram sem við hvetjum áhugasama til að skoða hér.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.