Gengur 940 kílómetra til styrktar Ljósinu

Jakobsvegur er mörgum kunnugur en þá leið ætlar Sveinn Jónsson að ganga nú í vor til minningar um eiginkonu sína sem lést um aldur fram úr krabbameini fyrir tæpum 30 árum síðan, einungsi 31 árs gömul.

Með göngunni vill Sveinn einnig safna áheitum fyrir Ljósið og varpa ljósi á starfsemina sem hann er sannfærður um að hefði skipt sköpum í sínu ferli, ef hún hefði verið komin á laggirnar. Við settumst aðeins niður með Svenna, eins og hann kýs að kalla sig, og ræddum það mikla verkefni sem framundan er.

 

Lengi gengið með þennan draum í maganum

Hvernig kom þetta verkefni til þín?

Ég las grein um Jakobsveg um 1994 og hugsaði þá að ég ætlaði að ganga þessa leið þegar ég hætti að vinna. Seinna sá ég heimildarmynd um veginn en það var svo ekki fyrr en ég var kominn á lífeyrisaldurinn að ég fór að skoða þetta fyrir alvöru. Fyrir tveimur árum gekk ég svo þessa leið. Það var mikið verkefni og margar lexíur sem ég lærði á leiðinni en umfram allt var þetta mjög heilandi ferð. Þegar heim var komið vissi ég að ég myndi fara aftur og nú ákvað ég að ég myndi fara þetta til að minnast Sigrúnar. Síðar þá fann ég einnig þessa miklu löngun til að nota ferðalagið til að vekja athygli Ljósinu en ég þekki fólk sem hefur nýtt sér þjónustuna og sagt hana vera ómetanlega. Ljósið var ekki til á þeim tíma sem krabbameinið kom inn í líf okkar en mikið hefðum við þurft á því að halda.

 

Gengur þú þetta ferðalag einn?

Sigrún heitin og Sveinn með syni sínum á góðri stundu

Frá upphafi vissi ég að ég yrði að ganga þessa ferð með þessu markmiði einn. Ég er umkringdur góðu fólki og hefur núverandi eiginkona mín sem og bróðir boðist til að ganga með mér en við eigum það bara eftir saman. Í þetta skiptið geng ég einn.

 

Afhverju vilt þú ganga einn?

Það má í raun segja að þetta sé að hluta uppgjör við sorg krabbameinsferlisins. Sigrún greindist með brjóstakrabbamein sem var komið út í eitla og við fengum þær fréttir að hún myndi lifi í vikur en ekki að ná að lifa einhverja mánuði. Rökhugsunin sagði vikur en ekki mánuði. 2, 4,6 vikur? Hún lifði svo lifði hún í fjögur ár sem voru mikill rússíbani. Hún útskrifast þó úr lyfja og geislameðferðum en 10 mánuðum síðar fáum við fréttir að krabbinn sé kominn í lifrina. Á þessum tíma verður Sigrún þó barnshafandi en sú gleði breyttist þó hratt í sorg þegar við þurftum að horfast í augu við þá staðreynd að við yrðum að velja um hvort að við myndum reyna á meðgönguna og hætta þá heilsu Sigrúnar. Eða fara í fóstureyðingu og vona að heilsa hennar myndi haldast lengur. Þessi dagur var hrikalegur en við vorum sammála um niðurstöðuna þó að við værum ekki sátt við hana. Þetta mál hefur alltaf verið erfitt og við í raun ræddum þetta aldrei eftir að ákvörðunin var tekin. Við vorum bæði alin upp af járnsmiðum, efuðumst aldrei um ást foreldra okkar en þau reiddu aldrei við okkur á þeim nótum.

Ég fór í gegnum þetta þegar ég gekk Jakobsveginn í fyrra skiptið og fann hvað þetta er heilandi. Þó að ég efist aldrei þessa ákvörðun þá tel ég að það komi aldrei sönn sátt. En það á sér stað visst uppgjör á leiðinni.

 

Ljósið hefði breytt svo mörgu

Svenni á ferð sinni um Jakobsveginn í fyrra skiptið

Afhverju vilt þú vekja athygli á starfi Ljóssins?

Sigrún lifði í 4 ár frá fyrstu greiningu og við vorum alltaf á því máli að við værum heppin að fá þennan tíma saman. Á þessum tíma var ekkert Ljós til en Sigrún fékk þó heimsókn frá konum sem höfðu gengið í gegnum svipaða reynslu. Það gerði svo mikið fyrir hana en á sama tíma var það bara ekki nóg. Við hefðum þurft að fá einhverja fræðslu. Á þessum tíma var Kjartan Magnússon læknir okkar stoð og stytta en það var engin fræðsla í boði um hvaða áhrif lyfjameðferðirnar myndu hafa og hvaða áhrif þetta myndi hafa á líf okkar. Bara fyrir hana að geta setið hér með öðrum konum eins og ég sé að hægt er hér í Ljósinu í dag hefði verið ómetanlegt. Ég var sjálfur að vinna í lítilli deild á stórum vinnustað en ég held að á öllum þessum fjórum árum hafi það bara verið ein kona sem spurði mig „Hvernig hefur þú það?“.

 

Hvernig leið þér?

Leiðin er jafn falleg og hún er krefjandi

Ég man alltaf eftir því þegar ég gekk út á bílastæði á spítalanum eftir að hún dó hvað mér var létt og í kjölfarið fékk ég svo mikið samviskubit. Eftir fjögur ár var þetta búið og seinna vissi ég að þetta væri eðlilegt tilfinning en þarna var ég bara með samviskubit. Það eru erfiðar tilfinningar. Einnig að vita ekki hvort maður sé að segja eða gera eitthvað rangt. Hvað má maður segja? Hvernig er maður að standa sig. Ég hef lifað góðu líf en það hefði verið gott að fá tækifæri til að vinna úr tilfinningunum samhliða áföllunum. Ég fann það sérstaklega þegar hún greindist aftur hvað ég upplifið mikið óöryggi. Það hvarf bara allt undan fótum mér. Þá hefði verið gott að geta leitað til rétta fagaðilans í Ljósinu og fá ráð og stuðning.

 

Hvernig má styrkja verkefnið?

Ég vil byrja á að segja að ég stend straum af öllum kostnaði við gönguna og Ljósið þarf ekki að greiða neitt í þessu verkefni. Allir styrkir sem safnast renna beint í þessa mikilvægu starfsemi sem Ljósið sem safnar nú fyrir nýju húsi. Vonandi næ ég góðri summu í þann sjóð. Það má heita á mig með því að leggja upphæð inn á reikning Ljóssins 0101-26-777118 kennitala: 590406-0740 og merkja færsluna Jakobsvegur.

 

Hvenær gengur þú af stað?

Hér er Sveinn með eiginkonu sinni, Margréti Elsu Sigurðardóttur, sem er honum mikill stuðningur í þessu stóra verkefni.

Ég geng af stað í kringum 20. apríl en mun í raun vera kominn út til sonar míns sem býr í Moseldalnum í Þýskalandi fyrr. Ég áætla um 35 daga í gönguna sem er nokkrum dögum lengra en síðasta ganga. Ég hef lært af þeirri ferð lexíu og ætla að fara mér hægar núna.

 

 

 

Við þökkum Sveini Jónssyni kærlega fyrir spjallið og óskum honum góðs gengis í göngunni. Það má fylgjast með framgangi verkefnisins á facebook síðu sveins hér.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.