Fluguhnýtingar eru heilandi handverk

Kara Jóhannsdóttir var með taugaskemmdir í höndunum eftir lyfjameðferð þegar hún skráði sig í námskeið í fluguhnýtingum í Ljósinu. Hún segir handverkið vera góða endurhæfingu.

Vinnur á taugaskemmdum með fínhreyfingum í flughnýtingum

Kara á góðri stundu í aðdraganda Reykjavíkurmaraþons 2022 – Mynd: Morgunblaðið

„Þegar ég skráði mig á námskeið í fluguhnýtingum var ég að kljást við doða, tilfinningaleysi og verki í fingrum“ segir Kara okkur frá þegar við ræðum við hana um flughnýtinganámskeiðið í Ljósinu sem hún hefur verið dugleg að sækja. Fluguhnýtingarnar eru handverk sem boðið hefur verið upp á í Ljósinu frá upphafi. Þar kemur skemmtilegur hópur saman og lærir að hnýta flugur fyrir margvíslega veiði undir leiðsögn þaulreyndra leiðbeinenda, segir veiðisögur og undirbýr næsta veiðisumar.

„Þegar ég byrjaði að hnýta flugur þá fannst mér það virkilega erfitt því ég fann ekki fyrir því sem ég hélt á. Ég sá aftur á móti hvað ég var að gera og þannig hef ég þjálfað á mér hendurnar“ lýsir Kara og leggur áherslu á hversu miklu máli það skiptir að gefast ekki upp, heldur að halda alltaf áfram. „Leiðbeinendurnir eru með ómælda þolinmæði og það þarf ekki að koma með neitt með sér, það er allt til á staðnum, bæði efni og verkfæri“.

 

Jólagjafir á haustin en flugukastið á vorin

Kara mætti á flugukastsæfingu síðastliðið vor

Hópurinn, sem hittist þessa dagana í Kiwanishúsinu Eldey að Smiðjuvegi 13a á miðvikudögum milli 9:00 – 12:00, samanstendur af bæði byrjendum og lengra komnum. Þegar líður á vorið er mikil áhersla á að fylla á fluguboxin og ætíð stefnt á að hafa flugukastkennslu en hópurinn hefur til að mynda haldið að Vífilsstaðavatni og Klambratúni til að æfa handtökin. Nú er aftur á móti verið að hnýta margskyns flugur og margir að hnýta í jólapakka veiðimannana samkvæmt umsjónarmönnunum Eyjólfi, Ólafi og Sigurbirni.

Þegar Kara er spurð um hvað sé gott að hafa bak við eyrað ef maður í hugar að taka þátt í handverkinu er svarið einfalt: „Bara mæta með góðaskapið. Oft eru sagðar skemtilegar veiðisögur en umfram allt er það er viss heilun að sitja og hnýta.“

Við þökkum Köru fyrir innsýnina í þetta skemmtilega handverk og hvetjum alla þjónustuþega til að prufa.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.