Sjóvá heitir 1000 krónum á þátttakendur í Ljósafossi

Ljósinu hefur borist liðsstyrkur frá öflugum samstarfsaðila í undirbúningi og framkvæmd Ljósafossins í ár en að þessu sinni ætlar Sjóvá að heita 1000 krónum á hvern þann sem tekur þátt í göngunni og skráir þátttöku í viðburðinn á Strava.

„Sjóvá tekur þátt í þessum viðburði vegna þess að okkur þykir mikilvægt að minna á að vonin er mikilvægt vopn í endurhæfingu krabbameinsgreindra. Með því að taka þátt minnum við á birtuna og vonina. Við erum til staðar fyrir þá viðskiptavini okkar sem greinast með krabbamein og vitum að við tekur erfiður tími. En það er jafnframt mikilvægt að muna að það er líf eftir greiningu og að Ljósið vinnur kraftaverk á hverjum degi fyrir þau sem eru í endurhæfingu og bata. Með því að taka þátt í Ljósafossinum minnum við á það.“ segir Jóhann Þórsson, markaðsstjóri Sjóvá.

Viðburðurinn, sem fram fer í Esjuhlíðum síðdegis laugardaginn 11. nóvember næstkomandi, er táknræn vitundarvakning en þetta er 14. árið í röð sem við undirbúum viðburðinn.

Við vonum að sem flestir gönguhópar og göngugarpar taki þátt í þessari fallegu vitundarvakningu og fjáröflun með okkur.

Skráning á Strava fer fram hér!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.