5 hlauparáð fyrir helgina og framtíðina

eftir Guðrúnu Erlu Þorvarðardóttur, íþróttafræðing í Ljósinu

Nú eru einungis nokkrir dagar í að Reykjavíkurmaraþon 2023 fer fram. Hér í Ljósinu höfum við verið á harðaspretti í undirbúninginum og hlökkum mjög til að taka á móti öllum hlaupagörpunum okkar á skráningarhátíðina í Laugardalshöll. Við verðum svo á hliðarlínunni í hlaupinu sjálfu og erum sannfærð um að þið munið heyra í stuðningsliðinu okkar alla leið að rásmarkinu!

Mig langaði rétt til að senda ykkur 5 góð ráð fyrir hlaupin, bæði ykkur sem ætlið að hlaupa um helgina en líka ykkur hin sem hafið hug á að bæta hlaupum inn í ykkar hreyfingu:

 

Skóbúnaður

Góðir skór eru það mikilvægasta sem þú þarft að eiga þegar þú ferð út að hlaupa. Það eru til margar tegundir og er best að fara og fá ráðleggingar frá fagfólki hvaða skór henta þér best.

 

Næring

Næringin er það sem kemur þér áfram í hlaupunum. Ekki borða stóra máltíð tveimur tímum fyrir keppnishlaup og ekki prufa að borða eitthvað nýtt daginn fyrir keppnishlaup.

 

Fatnaður

Fatnaður, Góð regla er að bæta alltaf ca 6° við hitastigið og klæða sig eftir því. Það er líka gott að hugsa um að ef þér er smá kalt í upphafi hlaups þá ertu rétt klædd/ur. Veðrið er ekki alltaf jafn slæmt og það lítur út um gluggann heima hjá þér.

 

Markmiðasetning

Markmið, settu þér raunhæft markmið og undirbúðu þig fyrir það. Auktu æfingaálagið jafnt og þétt á milli vikna svo þú lendir ekki í álagsmeiðslum.

 

Þetta snýst allt um að njóta!

Njóta, njóta, og njóta, það er það allra mikilvægasta við hlaupin. Finndu þér góða hlaupaleið, góða tónlist og besta félagsskapinn og þá áttu eftir að njóta í botn og komast þangað sem þú ætlar þér!!

 

Nú hlakka ég til að sjá ykkur sem flest á laugardag og vona að hlaupagleðin umvefji ykkur inn í framtíðina.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.