Júlí er mánuður Ljóssins í verslunum Nettó

Síðastliðinn laugardag hófst samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á mikilvægi endurhæfingar krabbameinsgreindra og á sama tíma safna fyrir Ljósið. Söfnunin felst í sölu sérhönnuðum pokum og spilastokkum sem skreytt eru verki Þorvalds Jónssonar. Listamaðurinn málaði verkið sérstaklega fyrir Ljósið en það ber heitið Keramik. Þorvaldur, ásamt fulltrúum Ljóssins og Nettó spjölluðu aðeins um verkefnið.

Þorvaldur Jónsson, listamaður, Heiða Eiríksdóttir, Sólveig Kolbrún Pálsdóttir og Helga Dís, markaðsstjóri Nettó.

„Okkur hafði lengi langað til að fá listamann að borðinu í vitundarvakningu,“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins, um tildrög verkefnisins. Henni og Heiðu Eiríksdóttur, sem sér um vef- og kynningarmál fyrir Ljósið, leist vel á verk Þorvaldar Jónssonar listmálara og ákváðu að senda honum línu. Hann tók strax vel í að mála verk fyrir Ljósið. „Pabbi var þá nýkominn úr endurhæfingu,“ segir Þorvaldur en reynsla föður hans af starfseminni var mjög jákvæð. „Hann er eiginlega bara hressari heldur en áður en hann fékk krabbamein og hefur haldið áfram að hreyfa sig.“

Keramik og núvitund

Kallað var eftir hugmyndum frá starfsfólki um hvað einkennir starfsemina og úr varð verkið Keramik. „Þetta er svolítið eins og Hvar er Valli?,“ útskýrir Þorvaldur. Í verkinu, sem er í naívismastíl, má finna ýmsa hluti sem tengjast Ljósinu, m.a. keramik. „Það þarf að leita að því. Svo er þarna líka karl að hlaupa, kaffi – það mikilvægasta, tálgun, gulrót, sem stendur fyrir grænmetisfæði, og snigill, áminning um að fara sér hægt.“

Sólveig segir að mörgum finnist keramikgerð vera það skemmtilegasta í Ljósinu. „Þegar fólk er að vinna með leirinn þá flæðir allt, það finnur sig og uppgötvar hæfileika sína. Það er eins konar núvitund.“ Auk æfinga með sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfum er hægt að spreyta sig á ýmiss konar handiðn í Ljósinu, nýta þjónustu hárgreiðslumeistara, snyrtifræðinga, heilsunuddara, fá hollan hádegismat, kaffi og gott spjall. „Fólk heldur að þetta sé svo alvarlegt hjá okkur en hvergi er hlegið eins mikið,“ segir Sólveig, og bætir við að samfélag Ljóssins sé einstakt.

 

Samstarf við Nettó

Vörurnar eru bæði glæsilegar og gæðamiklar

„Við vildum finna góðan aðila sem var tilbúinn að lyfta grettistaki með okkur og þá myndaðist tengingin við Nettó,“ segir Sólveig. Helga Dís Jakobsdóttir var nýtekin við sem markaðsstjóri Nettó þegar hún mætti á fund með Sólveigu og Heiðu og var dolfallin yfir umfangi starfseminnar. „Ákveðin átök eiga sinn mánuð og mig langaði að Ljósið fengi sinn mánuð. Í júlí er mesta ljósið. Mér fannst málverkið algjörlega geggjað og úr varð að prenta það á taupoka og spilastokka – eitthvað sem nýtist í útilegum, bústaðarferðum og sundferðum – og selja í Nettó.“ Héðan í frá verður júlí mánuður Ljóssins með árlegu styrktarátaki.

Allur ágóði af þessum vörum rennur beint til Ljóssins. „Okkur fannst frábært að þetta væru vörur sem þú gætir átt næstu 30 árin en ekki eitthvert landfyllingardót,“ segir Heiða. Auk þess rennur 25% af verði Nice & Soft salernispappírs frá Coop til Ljóssins í júlí. Allir einstaklingar sem greinast með krabbamein eiga rétt á þjónustu Ljóssins, sama hvar þeir búa á landinu. Því fannst Helgu tilvalið að nota matvöruverslanirnar, sem eru staðsettar um allt land, sem vettvang til að vekja athygli á Ljósinu og koma vörunum á framfæri.

 

Átakið stendur út júlí

Styrktarátakinu var formlega hleypt af stokkunum 1. júlí.  „Við erum allar mjög spenntar,“ segir Heiða. „Það er magnað hvernig allt hefur púslast saman. Það er svona þegar hlutirnir eiga að gerast.“ Átakinu lýkur síðan með uppboði á Keramik eftir Þorvald.

Pokana og spilastokkana má versla í öllum verslunum Nettó og í vefverslun hér.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.