Renata minnir konur á sterkan kjarna, jákvætt hugarfar og von í verkum sínum

Renata Agnes Edwardsdóttir er myndlistakona og listmeðferðarfræðingur. Hún hefur undanfarið sótt endurhæfingu í Ljósið og gefur nú miðstöðinni þrjú verk úr sinni smiðju til styrktarsölu.

Í verkum sínum varpar hún ljósi á konu eftir brjóstnám í baráttu við áfallið, líkamsbreytingar og tilfinningasveiflur. Verkið minnir konur á sterkan kjarna, jákvætt hugarfar og von sem býr innra með þeim í baráttu við meinið. Á myndinni sést kvennlíkaminn (torso) umvafinn spíral með gylltum lárviðarlaufum sem tákna sigur í grískri goðafræði.

„Eftir 15 ára reynslu í listmeðferð getur ég staðfest að listsköpun hefur „æðri mátt“ í baráttu við allskyns áföll og getur bjargað mannslífum. Það sleppur enginn við áföll eða það að upplifa sorg einhvern tímann á lífsleiðinni. Við því er ekkert að gera nema að sýna æðruleysi og þolinmæði, gefa öllum tilfinningum rými og umbreyta ótta í lærdóm.“

Segir Renata. Hún lauk námi  í listmeðferð sl. apríl þar sem lokaverkefni hennar fjallaði um „Aðferðir í listmeðferð fyrir kennara sem hafa upplifað kulnun í starfi“. Síðasta sumar fékk hún skemmtilegt verkefni til að halda þriggja vikna námskeið „Íslenska og listmeðferð“ fyrir úkraínsku börnin sem hafa nýkomið til Íslands. Á námskeiðinu var unnið með listsköpun og styrkleika barna og hvernig á að tengjast tilfinningum til að losa sig við áhyggjur, kvíða, reiði og óþolinmæði.

„Leyfum okkur að hlusta á röddina í hjartanu, finnum fyrir gleði og jákvæðni, verum meðvituð um okkar eigin fegurð og styrk, því það er fjársjóður okkar. segir Renata að lokum.“

Við þökkum henni fyrir sitt framlag.

Verkin eru til sýnis og sölu í móttöku Ljóssins.

Viðmiðsverð 30.000.-

Stærð verka: 50×70 cm

Innri styrkur og fegurð #1 Appelsínugult

Innri styrkur og fegurð #2 Fjólublátt

Innri styrkur og fegurð#3 Grænt

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.