Frábær félagsskapur og hvetjandi leiðbeinendur

Anna Guðrún með teppið fallega / Mynd: Ljósið

Anna Guðrún Auðunsdóttir er hress móðir, eiginkona og viðskiptafræðingur sem hefur undanfarið sótt saumanámskeið í Ljósinu sem hluta af sinni endurhæfingu. Á námskeiðinu hefur Anna ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur en hún ákvað að klára teppi sem hún hófst handa við fyrir 27 árum síðan.

Við spjölluðum aðeins við Önnu um handverkið, teppið, og hvernig námskeiðið hefur gagnast henni á sinni endurhæfingarvegferð.

 

Var með opin huga þegar hún skráði sig á námskeiðið

Þegar Anna skráði sig á námskeið í fatasaumi í Ljósinu var hún spennt en á sama tíma ekki alveg viss um í hvaða átt handverkið myndi þróast hjá sér „Ég á saumavél og hef í gegnum árin saumað gardínur, gert við saumsprettur, stytt buxur og svona einhverja beina sauma en ég hef aldrei lært neitt meira. Ég hef ekkert verið að dunda mér við saumaskap og vildi byrja á einhverju einföldu“ segir Anna okkur frá. Anna ákvað að byrja á stykki sem tengist öðru handverki sem hún hefur stundað meira af: „Þegar ég skráði mig á námskeiðið var ég með það í huga að sauma viðbót við prjónaveski sem ég á, en vinkona sem hvatti mig til að prófa námskeiðið var einmitt að sauma sér slíkt fyrir prjónana sína“ en það er algengt að þau sem sitja námskeiðið hugsi smátt í upphafi.

Aðspurð um hvaða áhrif námskeiðið hefur haft á hennar virkni og líðan í kjölfar greiningar segir Anna að það hafi, eins og svo margt í ljósinu, opnað fyrir að finna nýja styrkleika með því að prófa eitthvað nýtt. „Félagsskapurinn er frábær og leiðbeinendurnir hvetjandi og skemmtilegir. Ég hef aldrei litið á mig sem skapandi einstakling en hef fundið í gegnum handverkið í Ljósinu að mér finnst mjög gaman að búa eitthvað til og þegar maður fær góðar leiðbeiningar getur maður mikið meira en maður heldur. Það er ótrúlega gefandi að koma heim með fallega eða hagnýta hluti sem maður hefur búið til sjálfur, en mestu verðmætin liggja í ferlinu við að búa þá til. Maður fær á sama tíma samskipti og vinskap við aðra á námskeiðinu, einhvers konar núvitund þegar maður sökkvir sér í verkefnin og búst fyrir sjálfstraustið að sjá hvað maður getur“.

 

Fjársjóðurinn fundinn í skúrnum

Teppið er fullt af fallegum smáatriðum / Mynd: Ljósið

Þegar leið á námskeiðið fann Anna hjá sér löngun til að takast á við verkefni sem hún hafði lagt á hilluna fyrir tæpum þremur áratugum „Þegar prjónaveskið var að verða tilbúið fór ég að velta fyrir mér hvaða verkefni gæti verið næst og mundi þá eftir barnateppinu sem ég byrjaði á fyrir 27 árum. Maðurinn minn stökk þá út í bílskúr en hann hafði í gegnum árin ekki lítið gert grín að mér í hvert skipti sem hann rakst á það þar.“ Anna hófst handa við teppið góða þegar hún gekk með dóttur sína sem fædd er árið 1996.

„Ég man að ég sérpantaði efnið í teppið frá fyrirtæki í Þýskalandi. Ætli ég hafi ekki sent fax eða bréf til að panta það þar sem ég var varla farin að nota tölvupóst að ráði í þá daga. Ég saumaði út allar myndirnar og fann einmitt í dótinu mínu rissið hvar hvaða stafur ætti að vera, en svo kunni ég ekki að setja teppið saman, sauma bakið og filtið. Ég byrjaði eitthvað á því en gafst svo bara upp. Núna þessum árum seinna ákvað ég að nota tækifærið þegar ég hafði leiðbeinendur til að leita til og taka það aftur upp.“ segir Anna þegar hún leggur fallegt handverkið í móttöku Ljóssins. Teppið er virkilega fallegt, skreytt böngsum og stöfum sem augljóslega hefur verið nostrað við af mikilli kostgæfni.

 

Teppi með nýtt hlutverk

Teppið fær nýtt hlutver: Barnabarnateppið

Þegar Anna mætti með teppið á námskeiðið þurfti hún að byrja á að rekja smá upp. „Því næst fóru Katla og Lovísa, leiðbeinendur námskeiðsins, með mig í gegnum ferlið sem ég þyrfti að fara í til að ljúka við teppið. Það var sko ekki á leið inn í bílskúr aftur“ segir Anna okkur brosandi. En hvað verður þá um teppið fallega? „Ætli það bíði ekki bara eftir barnabörnunum, enda breyttist nafnið á því úr barnateppið í barnabarnateppið í samtölum okar hjóna fyrir mörgum árum. En það er spurning hvort það muni eiga heima hjá mér, hvort að dóttirin sem átti að fá teppið fái það nú eða hvort að fyrsta barnabarnið fái teppið. Ég hef líka grínast með hvort ég hafi hreinlega keppni svo að börnin fari nú að drífa sig að koma með börn, ég er alveg orðin tilbúin fyrir þau.“

Við þökkum Önnu kærlega fyrir að deila sínu handverki og óskum henni góðs gengis með næstu verkefni.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.