Leirlistakonan Melkorka býður upp einstakan mun til styrkar Ljósinu

Í dag hefst uppboð á fallegum handmótuðum kuðungsvasa úr smiðju leirlistakonunnar Melkorku Matthíasdóttur en hluti af upphæðinni sem safnast rennur til Ljóssins.

Kuðungurinn er handmótaður af leirlistakonunni Melkorku Matthíasdóttur

Melkorka vill að Ljósið njóti hluta upphæðarinnar en leirnum kynntist Melkorka fyrir alvöru þegar hún sat námskeið í Ljósinu eftir að hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir 6 árum.

„Þessi kuðungsvasi sameinar margt í mínu lífi. Ammonítinn (steingervingur) vísar í jarðfræðina og um leið mína ævi. Harðger lífvera með þeim fyrstu hér á jörð og á lifandi afkomendur enn í dag, hefur því harkað af sér áföll og aldauða í jarðsögunni. Leirinn sem kuðungurinn er gerður úr vísar í uppbyggingaferlið mitt þar sem ég kynntist honum í Ljósinu í minni endurhæfingu eftir brjóstakrabbamein og náði að gleyma mér og finna flæðið. Að síðustu má nefna taðglerunginn utaná kuðungnum en hann vísar í námið mitt í Myndlistaskólanum í Reykjavík þar sem ég ákvað að ganga lengra, fylgja hjartanu og lærði að búa til glerunga og fann sameiningarkraftinn í listinni og jarðfræðinni.“ segir Melkorka.

Vasinn er brenndur með heimagerðum glerungi úr taðösku sem er fengin frá Reykofninum í Kópavogi en taðið er komið alla leið frá Langanesi og hefur verið þurrkað í heilt ár. Það er því sannarlega um einstakan hlut að ræða.

Hluti af andvirði vasans rennur sem áður segir til Ljóssins og mun uppboðið standa yfir til klukkan 18:00 miðvikudaginn 1. febrúar á Facebook síðu Leirlistar Melkorku. Kuðunginn má berja augum á sýningunni „Og hvað um tað“ sem fram fer í Listasal Mosfellsbæjar út vikuna.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.