Árni Björn Pálsson ánafnaði Ljósinu sigurlaunum

Okkar fremsti knapi og íþróttamaður, Árni Björn Pálsson, leit við í Ljósinu í dag og afhenti Ernu Magnúsdóttur, forstöðukonu Ljóssins, 1.130.000 krónur. Upphæðin er sigurlaun Árna Björns úr einstaklings- og liðakeppni mótaraðar Meistaradeildar Líflands í hestaíþróttum 2022.

Árni Björn og Erna

Vildi Árni Björn með þessu framtaki sínu minnast móður sinnar, Hrafnhildar Árnadóttur, sem lést úr krabbameini árið 2018.

Með Árna Birni í för voru þau Sylvía Sigurbjörnsdóttir, knapi og tamningakona og Sigurbjörn Eiríksson, formaður stjórnar Meistaradeildarinnar Líflands í hestaíþróttum.

„Það er ótrúlega magnað að fá að kynnast því mikla starfi sem fram fer í Ljósinu og ég sé að upphæðin mun gagnast mjög vel. Ég vona innilega að fleiri styðji við starfið“ sagði Árni Björn að heimsókn lokinni.

Við þökkum Árna Birni kærlega fyrir rausnarlegt framlag sitt til endurhæfingarinnar í Ljósinu, og öllum gestunum fyrir komuna.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.