Reykjavíkurmaraþonið fer fram á morgun – Praktískar upplýsingar

Kæru vinir,

Það má með sanni segja að Reykjavíkurmaraþonið sé hátíðisdagur í Ljósinu. Hér í húsi hefur stemningin vaxið dag frá degi og bæði starfsfólk og þjónustuþegar að komast í mikla stemningu fyrir morgundeginum. Hér eru praktískar upplýsingar fyrir bæði hlauparana okkar og peppara.

Hlauparar

Þeir sem hlaupa fyrir Ljósið fá merktan bol að gjöf til að hlaupa í. Hægt er að nálgast bolina á sýningunni FIT & RUN sem fram fer í Laugardalshöll samhliða afhendingu hlaupagagna. Það er því tilvalið að sækja hlaupanúmerið og flöguna og kíkja svo á básinn okkar og næla sér í bol.  Sýningin er opin frá kl. 14:00 – 19:00 í dag föstudag.

Enn er möguleiki á að skrá sig í hlaupið, en skráning fer fram á FIT & RUN.

Dagskrá hlaupadags er eftirfarandi:

8:40 – Maraþon
8:40 – Hálfmaraþon
9:40 – 10 km
12:00 – Skemmtiskokk

Tímataka stoppar 7 klukkutímum og 30 mínútum eftir að fyrsta grein hefst. Hlauparar sem koma á marksvæðið eftir klukkan 16:10 fá því ekki skráðan tíma.

Hlaupið hefst í miðbænum rétt hjá Tjörninni. Allar vegalengdir hefjast í Sóleyjargötu og enda svo í Lækjargötunni, fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík.

Pepparar

Peppstöð Ljóssins verður á sama stað og undanfarin ár til móts við JL húsið sem er á horni Hringbrautar og Ánanaustar. Það eru allir hjartanlega velkomnir að koma og peppa með okkur, við lánum öllum peppurum boli sem verða á staðnum. Einnig erum við með áhöld til að klappa með, en við hvetjum þá sem geta að mæta með hristur, trommur eða annað sem gæti nýst vel.

Við gerum ráð fyrir að fyrstu hlauparar í hálfu og heilu maraþoni séu að koma framhjá okkur um kl.9:00 og fyrstu hlauparar í 10km hlaupi um kl:10.00.

Þarna klöppum við, stöppum, köllum og hrópum til að peppa okkar frábæru hlaupara áfram.

Þetta er virkilega skemmtilegt, og hvetjum við alla sem hafa áhuga á að mæta til að fagna og peppa með okkur.

Við sendum góðar kveðjur og þakklæti til allra sem ætla að hlaupa fyrir Ljósið á morgun og óskum ykkur góðs gengis og skemmtunar.

Bestu kveðjur,

Starfsfólk Ljóssins.

 

 

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.