Ljósið hlýtur Bjartsýnisverðlaun Framsóknar

Ljósið hlaut um liðna helgi bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins fyrir framlag sitt til endurhæfingar krabbameinsgreindra.

Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins, veitti verðlaununum viðtöku fyrir fullu húsi og við mikið lófatak. Það var Sigurður Ingi, Innviðaráðherra, sem veitti Ernu verðlaunin og fór þar fögrum orðum um miðstöðina og það starf sem þar fer fram.

Erna þakkaði fyrir þann stuðning sem málstaður krabbameinsgreindra hefur hlotið meðal framsóknarmanna í gegnum árin. Hún þakkaði sérstaklega fyrir aðkomu flokksins að því að tryggja faglega endurhæfingu Ljóssins í gegnum fjárlög. Einnig þakkaði hún innilega stuðning við nýstofnaða Landsbyggðardeild Ljóssins sem ætlað er að bæta þjónustu við krabbameinsgreinda á landsbyggðinni.

„Ég er þakklát, auðmjúk og bjartsýn“

„Ég er þakklát, auðmjúk og bjartsýn“ sagði Erna er hún veitti verðlaununum viðtöku.

Erna minnti jafnframt á að greiningum fjölgar með hverju ári og þannig þörf fyrir faglega endurhæfingu og stuðning við þá sem greinast og aðstandendur þeirra.

Bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins voru fyrst veitt árið 1996, með það að markmiði „að koma á fót verðlaunum sem veitt verði aðilum utan flokksins sem hafa lagt eitthvað jákvætt að mörkum til íslensks samfélags“.

Við þökkum viðurkenninguna og höldum áfram þakklát, auðmjúk og bjartsýn.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.