UPPFÆRT – Sýningin verður opin inn í vikuna 28. febrúar – 4. mars og við hvetjum ykkur öll til þess að líta við á þennan flotta viðburð.
Það var árið 2014 sem fyrstu skref félagsskaparins Penslarnir voru stigin, það var í endurhæfingu í Ljósinu sem forsprakkarnir hittust fyrst og hafa þau haldið hópinn síðan. Engan grunaði þá að mörgum árum síðar væru enn þessi sterku bönd enn til staðar í þessum magnaða hóp, sem mun eflaust fylgjast að út lífið.
Hópurinn hefur gengið saman nánast daglega síðan 2014. Þau arka af stað kl.8.00 á hverjum morgni í nærandi göngu fyrir líkama og sál sem oftar en ekki endar með sundferð.
Myndlistin hefur átt hjá þeim sterkan sess, en saman mála þau á verkstæði sem þau hafa aðgang að í Norðurbrún í Reykjavík. Þar hafa þau hist síðan árið 2016 og málað saman 1-2 sinnum í viku, en með árunum hafa fleiri snillingar bæst í hópinn. Reglulega hafa þau fengið kennara til að leiðbeina og skerpa tæknina á styttri námskeiðum í myndlist. Það má því með sanni segja að nafn hópsins Penslarnir, sé nafn með rentu, enda hvert öðru liprara með penslana á lofti.
Nú opnar hópurinn sína fyrstu samsýningu í Gallerí 16 sem staðsett er á Vitastíg 16, 101 Reykjavík. Svo heppilega vill til að ein úr hópnum, Kristín Elínborg Sigurðardóttir opnaði nýverið fallegt gallerí þar sem sýningin fer fram. Hún er þó ekki með verk á sýningunni, þar sem hún vinnur aðallega í leir.
Sýnendur eru:
Árni Svavarsson
Gerður Sigurðardóttir
Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir
Hulda L Stefánsdóttir
Margrét Hjaltested
Oddný Gunnarsdóttir
Sigrún Marinósdóttir
Sýningin opnar í dag 18.febrúar með opnunarhófi frá kl: 16.00 – 18.00.
Sýningin stendur til 24.febrúar næstkomandi og er opnunartíminn eftirfarandi:
Virka daga kl. 13:00 – 17:00
Laugardaga kl. 11:00 – 15:00
Sunnudaga LOKAÐ
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að skella sér í miðbæinn og heimsækja þessa skemmtilegu sýningu, og jafnvel ylja sér á góðum kaffi eða kakóbolla á kaffihúsi. Sjón er sögu ríkari.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.