“Ég er alltaf að breyta til og prófa eitthvað nýtt”

Þórður Ásgeirsson hefur fundið myndlistarhæfileikann

Í vikunni fengum við skemmtilegt heimboð til Þórðar Ásgeirssonar, þjónustuþega í Ljósinu, en næstkomandi laugardag opnar hann myndlistarsýningu í Gallerí Göng og ber sýningin heitið Ljósið í myrkrinu.

Þórður hefur undanfarin ár sótt endurhæfingu í Ljósið vegna krabbameins en áður en hann hóf endurhæfinguna hafði hann aldrei dregið upp pensil áður. Hann segist þó til að byrja með ekki hafa verið spenntur við tilhugsunina en í dag þakkar hann iðjuþjálfanum sínum, Önnu Sigríðir Jónsdóttur, fyrir að þrýsta á hann að skrá sig á byrjunarnámskeið í myndlist hjá Margréti Zophoníasdóttir.

Á námskeiðinu kynntist hann góðum hóp sem seinna þróaðist í félagsskap sem málar saman.  Það má því segja að ákvörðun hans um að slá til og taka þátt hafi haft mikil og jákvæð áhrif á líf Þórðar.

Þórður horfir til baka í mörgum verka sinna en hér er það Gústabraggi sem eldri Reykvíkingar muna mögulega eftir

Fyrstu myndirnar málaði hann með akrýl og olíu, en undanfarið hefur hann sótt leiðsögn á framhaldsnámskeiði hjá Margréti Jónsdóttir í Ljósinu þar sem þau eru að vinna með vatnslitina og tæknina tengd þeim. En það getur verið krefjandi að skipta á milli miðlanna.

“Í vatnslitunum er snjórinn bara ómálað blaðið, það er ekki aftur tekið ef þú setur lit þar sem til dæmis átti að vera snjór” segir Þórður og brosir út í annað.

 

Fjölbreytt myndefni 

Myndefnið er fjölbreytt, bæði fer sækir hann í heim fantasíunnar, fjölskyldan og barnabörin, náttúran, frægir einstaklingar, horfin hverfi á heimaslóðum ásamt því að gömlu meistararnir veita honum mikinn innblástur. Má þar nefna Van Gogh, Monet og Picasso, en þessi dægrin er það Van Gogh sem á hug hans allan. “Maður stúderar ekkert málara svona einn, tveir og þrír, það tekur mörg ár” segir Þórður, en hann hefur gaman af því að skoða meistarana og þeirra tækni ofan í kjölinn.

Hann segist ekki þurfa að leita langt yfir skammt eftir myndefni, en einstaklega fallegt útsýni er á fallegu heimili þeirra hjóna, þar sem náttúran skartar sýnu fegursta og hver árstíð býður uppá hlaðborð af litum til innblásturs.

„Eplið“ er fantasíuverk sem skemmtilegt er að stúdera

“Ég er alltaf að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Ég þarf að prófa þetta og svo þarf ég að prófa hitt þannig að það eru eiginlega aldrei tvær myndir eins” segir Þórður þegar hann sýnir okkur skemmtilega mynd sem hann kallar eplið. Hann segir epli yfirleitt vera í félagsskap annarra ávaxta eins og vínberja á málverkum. Hér tók hann mynd af hendinni á sér með epli, síðan klæddi hann handlegginn í liðsforingjabúning. Bakgrunninn vildi hann ekki hafa ráðandi en samt að hann táknaði eitthvað. Valdi hann því moskuliti sem voru ráðandi á miðöldum, en bakgrunninn vinnur hann í fjarvídd. Grunn hugmyndin af myndinni er að liðsforinginn væri að bjóða fallegri dömu til sín og hún væri að horfa út um gluggann.

 

Sýning til styrktar Ljósinu

Þórður sækir innblástur til og leikur sér að mála eftirmyndir af verkum Van Gogh en hér heldur hann á mynd af sjúklingnum af hælinu með hattinn. “Hann er greinilega bakaður og þjakaður”

Þórði er það hjartans mál að þeir sem koma á sýninguna sjái hversu frábærir hlutir geta komið út úr endurhæfingunni hjá Ljósinu, og sýna fólki að lífið heldur áfram og möguleikarnir eru margir eins og hann nefnir sjálfur. Sýningin hefur að geyma 30 myndir, sem flestar eru til sölu en þó eru einhverjar eru í einkaeigu.

Myndirnar verða boðnar upp hver fyrir sig, en þær má skoða á síðu Þórðar með því að smella hér. Helmingurinn af söluandvirði rennur í starf Ljóssins.

Við hvetjum áhugasama að heimsækja sýninguna sem opnar laugardaginn 15.janúar kl: 13:00. Sýningin stendur yfir til laugardagsins 25. janúar kl 16.

Sýningarsalurinn Gallerí Göng er opinn mánudaga til fimmtudaga kl:10 til 16 og föstudaga kl:10 til 15. Á meðan á sýningu stendur verður einnig opið laugardaga og sunnudaga frá kl: 13 til 16

Gestir eru beðnir að mæta með grímu.

Nokkrar mydir eru í einkaeigu

Margir ólíkir stílar og efni einkenna sýningu Dodda

„Gula húsið“ er kunnuglegt mörgum

Ein af fjölmörgum myndum Dodda

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.