Andrúmsloftið í Ljósinu lætur þér líða vel

Guðrún Eiríksdóttir hleypur sína leið fyrir Ljósið // Mynd Ljósið

„Ég hef í gegnum tíðina verið í ýmsum íþróttum en ekki hlaupum svo það er áskorun fyrir mig að hlaupa 10 km. Í fyrra var svo stutt frá stóru meðferðinni minni að ég treysti mér ekki þá en lofaði eiginlega stelpunum í ræktinni hérna í Ljósinu að hlaupa núna í ár og við það stendur. Mig langar nú helst að gera þetta með sóma en ég bý ágætlega að því að æfa bæði golf og blak,“ segir Guðrún Eiríksdóttir sem hleypur sína leið fyrir Ljósið í kjölfar þess að Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka var aflýst.

Guðrún segir að það sé ekki spurning að það hafi hjálpað henni í endurhæfingunni að vera fyrir í góðu líkamlegu formi og eins að vera með mikið keppnisskap úr blakinu. Guðrún bætir við að golfið sé styrkjandi og nærandi bæði líkamlega og andlega og hafi það reynst henni vel sem hluti af endurhæfingu.

„Í Ljósinu mætti ég reglulega á æfingar og stöðumat var tekið af og til. Ég vildi alltaf hafa eitthvað markmið til að stefna að sem ég gat haft á bak við eyrað þó ég næði því ekki endilega alltaf. En þarna blossaði keppnisskapið upp og þetta reyndist mér vel til að halda áfram í því mikla verkefni sem endurhæfingin í raun er,“ segir Guðrún.

 

Góður hópur kvenna

Guðrún hafði heyrt af Ljósinu og hringdi þangað fljótlega eftir greiningu. Hún var niðurbrotin og var strax tekið opnum örmum í Ljósinu og umvafin af starfsfólki.

Stuðningurinn í Ljósinu var Guðrúnu ómetanlegur // Mynd: Ljósið

„Í þessu fyrsta símtali talaði ég við hana Emmu í móttökunni og hreinlega brotnaði niður. Hún spurði mig varlega hvort ég treysti mér til að mæta í nýliðakynningu sem var að hefjast og það varð úr. Þegar ég mæti síðan í Ljósið var hún búin að sjá til þess að ég fengi að hitta iðjuþjálfa sem bjó til prógramm með mér. Þetta voru svona fyrsta skrefin og svo vel tekið utan um mann strax. Við stofnuðum síðan æðislegan kvennahóp nýliðarnir þarna um haustið sem við kölluðum Fjósakonurnar. Við hittumst af og til og borðum saman og höldum hópinn. Svo skellti maður sér í leirinn, jóga, æfingasalinn og fleiri skemmtileg námskeið sem voru í boði. Síðasta vetur var ég síðan í útskriftarhópi sem mætti tvisvar í viku í salinn hjá Ljósinu. Þeir tímar voru frábærir og mjög gott að hafa svona eftirfylgni. Ég hefði ekki viljað fara í gegnum veikindin og endurhæfinguna án þessa stuðnings sem ég fékk í Ljósinu,“ segir Guðrún.

Hún segir allt öðruvísi að opna sig á stað sem Ljósinu þar sem allir eru að ganga í gegnum það sama.

Guðrún segir andrúmsloftið í Ljósinu svo gott hún hafi oft bara komið til að borða. sitja smá og kjafta // Mynd: Ljósið

„Það var gott að geta spurt spurninga og notið stuðnings af fólki í sömu stöðu. Svo er andrúmsloftið svo gott að manni leið alltaf vel í Ljósinu og ég kom oft til að fá mér að borða og bara sitja smá og kjafta. Ég verð að hrósa matnum sérstaklega en hann er æðislegur og hentar vel mínu mataræði en ég breytti yfir í basískt mataræði í veikindunum þar sem uppistaðan er hollur matur með mikið af grænmeti.

Í raun sagði læknirinn við mig í fyrstu að ég væri með ólæknandi krabbamein og þá snýst auðvitað allt við í lífinu m.a. mataræðið en ég fór þarna að fordæmi tveggja kjarnakvenna sem greindust með sama krabbamein og ég. Önnur þeirra þverar í dag jökla og gengur á fjöll og það er frábært að hafa slíkar fyrirmyndir,“ segir Guðrún.

 

Esjuganga á afmælinu

Nú fyrir skömmu fékk Guðrún sinn síðasta skammt af viðhaldslyfi og lauk þar með sinni þrítugustu heimsókn á krabbameinsdeildina. Hún setti inn færslu um þessi tímamót á Fésbókina með tengli á áheitasíðu sína fyrir maraþonið og segir að þá hafi áheitin aðeins byrjað að skila sér. Eins gekk hún á Esjuna á afmælinu sínu þann 7. nóvember síðastliðinn og styrkti þá Ljósið í tilefni dagsins.

„Afmælisdagurinn árið á undan hafði verið erfiður en þá var ég að hefja lyfjagjöf og rakaði af mér hárið. Í þetta sinn ákvað ég því að ganga á Esjuna í góðra vina hópi og hét á lokaðan hóp á Fésbókinni að ég myndi gefa 1.000 krónur til Ljóssins fyrir hvern þann sem myndi líka við færsluna. Það gerðu 100 manns og ég styrkti Ljósið um 100.000 krónur og fleiri úr hópnum létu fé af hendi rakna. Sem betur fer getur maður gefið aðeins til baka með þessum hætti og nú aftur með hlaupinu en þó ekki nærri jafn mikið og Ljósið hefur gefið mér,“ segir Guðrún.

 

Allir verða að leggjast á eitt

Framtíð Ljóssins er Guðrúnu hugleikin og vill hún tryggja að þeir sem greinist eigi áfram í stað að venda // Mynd: Ljósið

Guðrún er tölvunarfræðingur og starfar sem verkefnastjóri hjá Össuri. Hún var orðin þriggja barna móðir 25 ára en frumburð sinn eignaðist hún árið 1998 og tvíbura tveimur árum síðar. Það er mikil tilhlökkun hjá fjölskyldunni núna því von er á litlu ömmugulli í upphafi næsta árs. Fyrir nokkrum árum síðan byggðu þau hjónin sér sumarbústað þar sem þau njóta þess að vera með fjölskyldunni.

„Það lítur allt vel út hjá mér í dag. Enginn veit í raun hver er næstur og ég bjóst ekki við því að ég þyrfti að nýta mér Ljósið sem reyndist mér síðan svona vel. En til að svona staður geti gengið verðum við öll að hjálpast að og leggjast á eitt til að tryggja framtíð hans,“ segir Guðrún að lokum.

 

Smelltu hér ef þú vilt heita á Guðrúnu

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.