Landvættur hleypur maraþon fyrir Ljósið

„Ég myndi ekki segja að ég væri hlaupagarpur í eiginlegri merkingu þess orðs því ég er nýbyrjuð að hlaupa en mér finnst það bæði gaman og gefandi. Þegar ég var yngri stundaði ég frjálsar íþróttir og seinni ár blak og strandblak áður en ég greindist. Þessi grunnur hafði mikið að segja í minni endurhæfingu auk þess sem ég fékk mjög gott aðhald í Ljósinu bæði í hreyfingu og sjúkraþjálfun,“ segir Eyrún Harpa Hlynsdóttir sem greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2019.

Eyrún er sannarlega þakklát fyrir þjónustu Ljóssins

„Mér fannst ég í fyrstu ekki vera nógu veik til að koma í Ljósið en þegar ég loksins fór sá ég eftir að því að hafa ekki komið fyrr. Ég var búin að fara í brjóstnámsaðgerð og brottnám á eggjastokkum þegar ég mætti á námskeið fyrir nýgreindar en best er að gera það strax við greiningu. Þannig gerir maður sér betur grein fyrir því hvað er framundan í meðferð og endurhæfingu og fær svör við ótal spuringum sem brenna á manni.

Starfsfólkið í Ljósinu umvefur mann strax og passar upp á mann og nafnið sjálft myndi ég segja að lýsi staðnum best. Þarna er svo margt gott í boði og ég hvet bæði fólk og aðstandendur að nýta sér þjónustuna,“ segir Eyrún.

 

Átján hringir á gönguskíðum

Áður en Eyrún greindist höfðu hún og maðurinn hennar skráð sig í Landvættina haustið 2018 sem  hann lauk sumarið 2019 og segir hún það hafa verið sína gulrót.

Það er stutt í gleðina hjá Landvættinum Eyrúnu

„Ég var ákveðin að ætla að klára þetta og tókst að verða Landvættur árið 2020. Þetta er mjög skemmtilegt prógramm þar sem þú stígur aðeins út fyrir þægindarammann m.a. með því að klífa fjöll, læra  á gönguskíði og synda í vötnum. Þetta er ögrandi en þú kemst í gott, líkamlegt form. Covid setti sitt strik í reikninginn enda engar samæfingar haldnar og þær eru stór hluti af þessu. Auk þess var bæði gönguskíðakeppni og Bláalónsþraut aflýst í ljósi aðstæðna. Landvættafélagið kom hins vegar til móts við þátttakendur þannig að þeir gátu framkvæmt hverja þraut í kílómetrum án þess að það þyrfti að vera í réttum landshluta.

Ég synti því í Laugarvatni í stað Urriðavatns og hjólaði Bláalóns leiðina á þeirra vegum þó það væri ekki í keppni. Við gátum síðan hlaupið í Þorvaldsdalnum í júlí 2020, þegar takmörkunum var aflétt um tíma, en fjórðu þrautina, sem er gönguskíðaþraut, kláraði ég þann 30. desember 2020 á golfvellinum í Bíldudal. Pabbi minn og bróðir sporuðu gönguskíðabraut og þarna þrammaði ég 18 hringi á gönguskíðum  í marga klukkutíma og sá bæði sólarupprás og sólsetur í frábæru veðri svo þetta var mögnuð upplifun,“ segir Eyrún.

 

Svífur á malbikinu

Eftir 25 km hlaup í Þorvaldsdal vildi Eyrún gefa til baka og skráði sig í hálft maraþon árið 2020 en ætlar í ár að hlaupa fullt maraþon.

Eyrún með eiginmanni sínum, Torfa Jóhannssyni, sem ætlar að hlaupa með henni í september

„Þó ég geti aldrei þakkað fyllilega fyrir það sem hefur verið gert fyrir mig í Ljósinu vildi ég þó gera eitthvað og hugsaði með mér í fyrra að ég hlyti að geta puðrast þetta og var ekki með tímamörk. Við gerðum þetta á eigin vegum og söfnðum fyrir Ljósið og nú í vor, eftir að ég lauk Fossavatnsþrautinni sem er 50 km, hugsaði ég að ég hlyti að komast í gegnum maraþon í ár.  Ég fór líka aftur í Bláalónsþrautina og kláraði nú nýverið Þorvaldsdalsskokkið. Ég er alltaf að einhverju og líður best þannig þó orkan sé mismunandi.

Eins hef ég aldrei hlaupið svona lengi á malbiki svo það verður áskorun en ég mun örugglega svífa því þetta verður fyrir svo frábært málefni. Maðurinn minn hefur verið minn aðal peppari ogaldrei leyft mér að leggja árar í báta. Núna hefur þetta reyndar aðeins snúist við en ég dreg hann í hlaup og hann mig að hjóla í staðinn,“ segir Eyrún.

 

Ekki til stærri brekka

„Þú getur líka alltaf aðeins meira en hausinn er að reyna að segja þér“

„Ég er mjög þrjósk og þó það hljómi kliskjukennt þá er ekki til stærri brekka en krabbamein. Það má segja að allar brekkur séu auðveldar í samanburðinum og þú getur líka alltaf aðeins meira en hausinn er að reyna að segja þér. Kannski hef ég komist langt áfram á seiglunni í því sem ég hef afrekað í minni hreyfingu en það er ekkert í boði nema að halda áfram,“ segir Eyrún.

Eyrún safnar nú áheitum fyrir Ljósið og hefur sett sér það markmið að safna 422.000 krónur fyrir kílómetrana 42,2.

„Ég á eftir að herja ítrekað á vini og vandamenn og verða sífellt meira uppáþrengjandi eftir því sem nær dregur,“ segir Eyrún í léttum dúr en bætir við að sem allra flestir ættu að styrkja þá sem hlaupa fyrir svo gott málefni og einnig að gerast Ljósavinir.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.