Vatnsberi orðinn að Ljósbera

Viðar er duglegur að nýta sér endurhæfinguna í Ljósinu

„Ég mæli eindregið með að fólk leiti í Ljósið í sinni meðferð og endurhæfingu. Það er gott fyrir fólk að koma þangað og vera í hópi fólks sem er að ganga í gegnum það sama. Ég þekkti til starfsseminnar í gegnum vin minn og þegar ég greindist sjálfur ákvað ég að drífa mig af stað og prófa að mæta. Það kom mér virkilega á óvart hvað það var mikið í boði hérna og í raun var ég dauðþreyttur hér fyrstu dagana því það var svo margt að taka inn á námskeiðunum. Í Ljósinu er líka svo gott andrúmsloft að ég átti það til að dotta stundum á fyrirlestrum mér leið svo vel,“ segir Viðar Árnason og hlær.

Viðar hefur sótt Ljósið síðan í byrjun árs en sjúkdómsferli hans hefur verið frekar hratt og líkir hann sér við geimflaugina sem send var til Mars sama dag og hann fór í fyrstu aðgerðina. Batinn hafi að sama skapi gengið vel og verið hraður og hann hafi í raun lent á undan geimflauginni en þó blessunarlega farið rólegar niður.

 

Andleg og líkamleg endurhæfing

„Mögulega hefur nú líkaminn verið að reyna að segja mér eitthvað nokkru áður en ég greindist en strax um sumarið 2020 var ég orðinn mjög þungur andlega sem er óvenjulegt miðað við árstímann.

Viðar er eitt af andlitum Ljósavina 2021

Það hefur einmitt hjálpað mér heilmikið að sækja sálfræðiþjónustuna í Ljósinu í gegnum veikindaferlið. Þannig tappar maður af vanlíðan og fær svör við spurningum sem brenna á manni. Með þessu fær fjölskyldan líka ákveðinn frið fyrir manni sem er nauðsynlegt og ég hef komið endurnærður heim,“ segir Viðar.

Hann segist hafa reynt að nýta sér flest allt það sem í boði er í Ljósinu og sótt öll þau námskeið sem hafi hentað sér og hafi þau reynst bæði fróðleg og ánægjuleg.

„Ég hef líka verið sæmilega duglegur í íþróttasalnum þar sem er fín aðstaða og svo er gott að kynnast fólki hérna í húsinu og sjá hvernig aðrir hafa það,“ segir Viðar.

 

Þakklæti á báða bóga

Viðar við upptökur á herferðinni

Viðar er einn af andlitum nýjustu herferðar Ljóssins og segir það hafa verið skemmtilegt verkefni sem hann leysti af hendi með glöðu geði.

„Það var mjög gott að geta sýnt þakklæti til Ljóssins með þessu móti og gaf mér mikið að geta gefið til baka á þennan hátt,“ segir Viðar sem í umræddu myndbandi hringdi í Sunnu systur sína sem staðið hefur þétt við bakið á bróður sínum í gegnum tíðina. Einnig hringdi hann í konu sem átti dóttur sem sótt hafði Ljósið og segir þau hafa náð mjög vel saman. Hún hafi verið bæði klökk og þakklát fyrir símtalið.

„Systir mín var agalega forvitin en ég mátti lítið sem ekkert segja henni fyrirfram. Þetta kom henni á óvart og samtalið lítið undirbúið en það flæddi vel enda af nógu að taka,“ segir Viðar og segir hugmyndina að baki myndbandinu áhrifaríka og gott að geta sýnt þakklæti á báða bóga.

 

Atorkusamur Vestmanneyingur

Viðar er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og er yngstur í sjö systkina hópi. Hann starfaði sem netamaður á bát frá Vestmannaeyjum þar til hann lenti í bílslysi árið 1987 og hefur síðan verið bundinn við hjólastól.

Eftir slysið fór Viðar að stunda borðtennis auk þess sem hann nýtur þess að hjóla með fjölskyldunni en árið 2012 safnaði hann sér fyrir handknúnu þríhjóli sem hann notar enn í dag.

„Ég er miklu hressari í dag og tilbúinn í hvað sem er,“ segir Viðar í léttum dúr en bætir við að hann vonist þó til að fá að vera í Ljósinu sem lengst.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.