Ljósið og Sidekick undirrituðu rannsókna- og þróunarsamstarf

Ljósið og heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health undirrituðu í dag samning um rannsóknir og þróun hugbúnaðar fyrir aukinn stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og fjarheilbrigðisþjónustu.

Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins og Sæmundur Oddsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri lækningasviðs Sidekick undirrituðu samninginn í dag

Markmið samstarfsins er að bæta þjónustu Ljóssins við krabbameinsgreinda, varpa ljósi á hvernig nota má tæknina til að styðja enn betur við endurhæfingu með stuðningi, jákvæðri sálfræði, aðgengilegri fræðslu og fjarvöktun einkenna og stuðla þannig að bættum lífsgæðum.

Hluti af rannsóknarsamstarfinu er að aðlaga stafræna heilbrigðislausn Sidekick að þörfum krabbameinsgreindra, sem er aðgengileg í gegnum snjallsíma, og styðja fólk til að taka virkari þátt í eigin endurhæfingu og beita aðferðum gagnreyndrar læknisfræði til að mæla áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Lausnin mun gera fagfólki Ljóssins kleift að styðja enn betur við þjónustuþega í daglegu lífi utan miðstöðvarinnar. Skráning í rannsóknina er hafin hjá fagaðilum Ljóssins og hvetjum við alla þjónustuþega til að kynna sér verkefnið hjá starfsfólki Ljóssins.

“Samstarf við Sidekick er mikið tækifæri fyrir okkur hjá Ljósinu til að styðja enn betur við okkar skjólstæðinga, þar sem aðgangur að stuðningi fæst í gegnum snjallsímann. Sérfræðingar Ljóssins bæta þarna við sig tóli sem gefur tóninn fyrir það sem koma skal, ásamt því dýpka þekkingu sína enn fremur,” segir Erna Magnúsdóttir forstöðukona Ljóssins.

 

Mikið framfararskref í endurhæfingu krabbameinsgreindra

Fyrsta skrefið er samanburðarrannsókn þar sem krabbameinsgreindir taka þátt með því að prófa heildræna nálgun í gegnum stafræna heilbrigðislausn og fjarvöktunartækni Sidekick.  Unnið verður með samanburð á milli hópa krabbameinsgreindra í lyfja og/eða geislameðferð sem annars vegar nýta sér tækni Sidekick og hins vegar nýta sér heildræna þjónustu Ljóssins án tæknilausnar Sidekick.

Ávinningur rannsóknarinnar felst meðal annars í aukinni þjónustu utan heilbrigðiskerfisins og betri líðan notenda

Ljósið og Sidekick eru sammála um að samstarfið sé mikið framfaraskref í endurhæfingu krabbameinsgreindra, þar sem ekki hefur verið í boði samskonar endurhæfing hérlendis áður. Ávinningur rannsóknarinnar felst í aukinni þjónustu utan heilbrigðiskerfisins og betri líðan notenda.

Við erum þakklát tækifærinu til að vinna með Ljósinu, og öllu því hæfa fólki sem þar starfar og leggur miðstöðinni lið við að bæta lífsgæði fólks með krabbamein,“ segir Sæmundur Oddsson, læknir, framkvæmdastjóri lækninga og rannsókna Sidekick. Það er mikill hugur í Sidekick teyminu þegar kemur að þessu samstarfi enda mörg okkar átt ástvini sem hafa greinst með krabbamein, eða jafnvel greinst sjálf. Við erum því þakklát fyrir þetta tækifæri og stuðning sérfræðilækna í krabbameinslækningum.

“Rannsóknir á fjarmeðferðum Sidekick hafa þegar sýnt fram á tölfræðilega marktæka bætingu á ýmsum þáttum sem geta haft áhrif á líðan og lífsgæði, eins og streitu, kvíða, svefn og blóðsykurstjórnun, svo eitthvað sé nefnt. Ljósið veitir nú þegar líkamlega og sálfræðilega endurhæfingu fyrir fólk sem greinist með krabbamein og hugmyndin er að nota tæknilausn Sidekick til að bæta þjónustuna enn frekar. Frá því að við Tryggvi Þorgeirsson, meðstofnandi og forstjóri Sidekick, útskrifuðumst úr læknadeildinni hefur snjallsímatæknin gjörbylt aðgengi sjúklinga og þar með möguleikunum á meira heildrænni og hvetjandi nálgun og auknum stuðningi, sem getur haft umtalsverð áhrif þegar kemur að líðan, aukaverkunum meðferða og útkomum. “ bætir Sæmundur við.

Um Sidekick

Sidekick var stofnað árið 2014 og sérhæfir sig í þróun á stafrænum heilbrigðislausnum og fjarheilbrigðiskerfum. Lausnin er hönnuð með það í huga að bæta líðan sjúklinga, auka meðferðarheldni og draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk, með því að fjarvakta einkenni sjúklinga svo styðja megi þá í daglegu lífi utan stofnana. Fjarheilbrigðismeðferð Sidekick er meðal annars notuð víða um heim til að styðja við fólk með langvinna sjúkdóma, eins og hjartabilun eða krabbamein. Félagið starfar einnig með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum og sjúkratryggingafélögum. 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.