Hvetjandi að mæta í Ljósið

„Það er ótrúlega hvetjandi að koma hingað í Ljósið og svo góður andi sem ríkir hér. Ég hef mætt á föstudögum í kallamatinn svokallaða og eins á ýmsa viðburði. Svo hef ég nýtt mér nuddið og líkamsræktina yfir veturinn og svo kem ég oft hérna við og er bara með læti og læt á mér bera,“ segir Rúnar Árnason í léttum dúr en hann hefur sótt Ljósið í um eitt og hálft ár.

Það er stutt í gleðina hjá Rúnari

Margir kannast eflaust við Rúnar af Reykjavíkurflugvelli þar sem hann rak Flugteríuna í ein 27 ár en þegar hann stóð á sextugu fór hann að lifa meira eftir því að lífið væri núna og vendi sínu kvæði í kross. Hóf hann þá hlutastarf á hóteli og skellti sér í leiðsögumannanám og starfar í dag við leiðsögn erlendra ferðamanna hérlendis og aðstoðar við fararstjórn kylfinga á Spáni.

Bjó hjá spænskri fjölskyldu

„Ég er í raun mjög jarðbundinn þó ég hafi verið óhræddur við að breyta til í lífinu. Þegar ég var tæplega fimmtugur gaf eiginkonan mér t.a.m. málanámskeið á Spáni í fyrirfram fimmtugsafmælisgjöf. Ég bjó þá hjá spænskri fjölskyldu í tvo mánuði sem ég kynntist vel og hef heimsótt þau og þau okkur.

Málakunnáttan hefur síðan komið sér vel í starfinu á Spáni og forréttindi að fá að vinna þar við golfið. Einnig hef ég farið með erlenda ferðamenn í matarupplifunar gönguferðir um Reykjavík á vegum Reykjavik Food Tours þar sem við smökkum hákarl, kræklinga og fleira góðgæti. Þessi störf eiga vel  við mig enda er ég mikil félagsvera og hef gaman að því að tala og hitta fólk,“ segir Rúnar.

Golfið gott fyrir líkama og sál

Rúnar safnar nú áheitum fyrir Ljósið en hann ætlar að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Hann býr að því að hafa alla tíð verið aktífur og hafa stundað stífar æfingar um árabil þó hann segist langt í frá vera nokkur hlaupagarpur.

Með fjölskyldunni á góðri stundu

„Á sínum tíma stundaði ég líkamsrækt nokkuð stíft og hljóp nokkrum sinnum í viku 10 km og einsetti mér að vera klukkutíma að því. Ég er nú ekki maður í það lengur en ég klára þetta hlaup með því að ganga og hlaupa það hefur bara sinn gang. Í raun aftrar mér ekkert í dag nema helst mæðin og þyngdin,“ segir Rúnar og klappar á magann glettinn á svip. Rúnar býr þó að því að ganga mikið í golfi og synda yfir kílómeter þrisvar sinnum í viku.

„Golfið spilar stóra rullu hvað varðar bæði úthald og andlega líðan. Það má segja að þetta sé mín hugleiðsla og fólk hefur sagt að ég sé eins og hamskiptingur þar sem ég er allt önnur og rólegri týpa úti á golfvelli. Svo varð nú golfið til þess að ég tók mig á sínum tíma í gegn líkamlega því þegar ég byrjaði í því sá ég hvað ég var í raun úthaldslítill og fór upp úr því að klífa ýmis fjöll og hvaðeina,“ segir Rúnar sem spilar með Golfklúbbi Reykjavíkur en er einnig bæði stofnandi og í stjórn golfklúbbs Úthlíðar í Biskupstungum þar sem hann á bústað og er mjög tengdur svæðinu. Eiginkonan kemur með í golfið en Rúnar segir hana þó ekki vera með bakteríuna eins og hann.

Minningarmót um vin

Golfið spilar mikilvægt hlutverk í úthaldi og andlegri líðan Rúnars

Rúnar hefur styrkt Ljósið á fleiri vegu en hann hélt minningarmót um vin sinn sem lést úr krabbameini. Mótið fór fram í Biskupstungum og söfnuðu þátttakendur peningum. Að loknu móti var Ernu, framkvæmdastýru Ljóssins, síðan afhentar 200.000 krónur sem hún veitti viðtöku á staðnum.

„Það er gott að geta gefið til baka til Ljóssins enda er það yndislegur staður sem ég hvet alla sem eru í þessum sporum til að sækja. Ein vinkona mín sem greindist talaði mikið og fallega um Ljósið og þegar í ljós kom að ég var kominn með krabbamein var engin spurning um að fara á kynningarfund í Ljósinu. Þá dró ég einmitt tvo vini mína með mér sem hreinlega elskuðu að vera þar,“ segir Rúnar.

Rólegri eftir hamaganginn

Rúnar greindist með blöðruhálskrabbamein og fór í brottnám en um tveimur mánuðum seinna var hann kominn á fullt í sauðburðinn í sveitinni.

Rúnar hefur verið duglegur að nýta sér endurhæfinguna í Ljósinu

„Ég hef ekki hlíft mér síðan ég lenti í þessu og ég var alveg búinn á því eftir tvo tíma í sauðburðinum en ég er ekki týpan til að sitja með bók fyrir framan kamínuna. Ég er alltaf rólegri þegar ég er búinn að hlaupa, synda eða hamast eitthvað svona,“ segir Rúnar og bætir við að æfingar gangi ágætlega en hann æfir mest utanvega í Úthlíð og kann vel við sig á reiðstígum og troðningum.

„Ég er nú svo sjálfsánægður að ég setti mér það markmið að safna einni milljón. Ég á eftir að herja á vini mína á Fésbókinni og vera með áróður þegar nær dregur og vona að ég komist nálægt því,“ segir Rúnar að lokum.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.