Færði Ljósinu veglegan þakklætisvott

Það eru svo margar fallegar stundir sem eiga sér stað hjá okkur í Ljósinu. Eitt af því sem hlýjar okkar hjartarótum hvað mest er auðvitað þegar við vitum að þjónustan sem við bjóðum upp á hafi nýst fólki í gegnum sitt ferli. Fyrr í vikunni kom hún Hanna Dóra Haraldsdóttir til okkar með veglegan þakklætisvott og meðfylgjandi bréf.

Styrkur til Ljóssins

Ég undirrituð Hanna Dóra Haraldsdóttir veiti hér með styrk til Ljóssin að upphæð kr. 200.ooo og óska þess að hann renni til leirvinslunnar.

Styrkurinn er gefinn til minningar um móður mína og tengdamóður, sem báðar fengu brjóstakrabbamein fyrir 25-30 árum.

Ég hef verið í ómetanlegri endurhæfingu hjá Ljósinu í rúmlega tvö ár og útskrifast 30. júní 2021.

Ljósið er yndislegur staður, þar sem ég hef sótt margvísleg námskeið, fræðandi og uppbyggileg og var leirnámskeiðið það sem kom mér mest á óvart og naut þég þess að læra eitthvað alveg nýtt sem mér hefði aldrei dottið í hug að reyna mig við. ég hef sótt ýmis konar andlega og líkamlega endurhæfingu og alls staðar mætt mikilli fagmennsku og jákvæðri framkomu sem skilar mér orkumeiri og sterkari út í framtíðina.

Vera mín í Ljósinu hjálpaði mér að takast á við erfiða tíma meðan ég var í læknismeðferð í kjölfar brjóstakrabbameins og ekki síður að meðferð lokinni við að byggja mig upp til leiks og starfa á ný.

Ég mun sakna Ljóssins og alls starfsins og starfsfólksins þar, en er jafnframt mjög ánægð með að nú taka við góðir tímar sem byggja á þessari frábæru endurhæfingu.

Með hjartanlegu þakklæti til stjórnenda og starfsmanna Ljóssins og óska ég þeim öllum góðs gengis um ókomna framtíð.

Reykjavík, 30. júní 2021

____________________
Hanna Dóra Haraldsdóttir, Ljósavinur

Við í Ljósinu þökkum Hönnu Dóru kærlega fyrir rausnarlega gjöf sem á svo sannarlega eftir að nýtast leirverkstæði okkar vel.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.