Þakklát fyrir litlu hlutina

„Maður upplifir svo mikla ást og kærleika frá starfsfólkinu í Ljósinu og langar að gefa eitthvað til baka þegar maður hef nýtt sér þá þjónustu sem þar er í boði. Ég hafði þegar ákveðið að hlaupa í maraþoninu en var ótrúlega glöð að fá að taka þátt í nýju herferðinni. Þessi hugmynd um þakklæti höfðaði beint til mín því ég hef einmitt reynt að vera þakklát fyrir litlu hlutina í þessu ferli,“ segir Viktoría Jensdóttir. Hún er nú í endurhæfingu í Ljósinu eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein í desember síðastliðnum.

Viktoría Jensdóttir hefur sótt endurhæfingu í Ljósið og þakkar fyrir sig í nýrri Ljósavinaherferð

Þakklæti er sem segir efst á baugi í nýjustu herferð Ljóssins þar sem nokkrir aðilar sem hafa nýtt sér þjónustu Ljóssins hringja í aðstandanda og Ljósavin og þakka fyrir stuðninginn. Viktoría segir að í raun hafi verið erfiðast að velja aðeins eina manneskju úr nánasta aðstandendahópi. Úr varð að hún hringdi í bestu vinkonu sína frá unglingsaldri, sem Viktoría kallar súper aðstandandann, en sú hefur þrisvar áður gengið í gegnum krabbameinsmeðferð með nánum fjölskyldumeðlimum.

 

Beint frá hjartanu

„Það er ótrúlega gott að geta gefið til baka en um leið ótrúlega skrýtið að hringja því þegar manni þykir svona vænt um einhvern eru engin orð nógu stór. Það var skemmtilegt að hringja í Ljósavin og geta þakkað fyrir allt sem ég var búin að upplifa í Ljósinu. Í raun var auðveldara að romsa því öllu út úr mér og ég ákvað ég að láta bara vaða beint frá hjartanu,“ segir Viktoría.

Smelltu til að horfa á samtal Viktoríu við mánaðarlegan styrktaraðila

Eftir greiningu lá leið Viktoríu fljótlega í Ljósið en allir þeir sem hún þekkti og höfðu greinst með krabbamein hvöttu hana til að skrá sig þar.

 

Kunni varla við að mæta

„Í fyrstu kunni ég varla við að mæta þar sem þetta var svo lítið og bara ein skurðaðgerð. Þegar ég hitti iðjuþjálfa hjá Ljósinu í fyrsta sinn var ég hörð á því að þetta yrði stutt ferli. Þar með afþakkaði ég t.a.m. alveg að láta skrá mig á biðlista fyrir leirinn því þettta yrði svo stutt og ég væri engin leirmanneskja. En þegar í ljós kom að krabbameinið hefði dreift sér í eitla og við tæki lyfja- og geislameðferð ákvað ég að nýta mér alla þá þjónustu sem í boði væri. Já og skella mér í leirinn sem er mjög skemmtilegt,“ segir Viktoría og hlær.

Viktoría horfir björtum augum á framtíðina

Hún segir iðjuþjálfann einnig hafa bent sér á að allir sem greinast fara í gegnum sama ferlið varðandi óvissu, kvíða og fleiri andlega þætti sama hversu alvarlegt meinið væri.

„Þetta var ótrúlega góður punktur því ég held að margar konur veigri sér við að leita sér aðstoðar því þær þurfi ekki lyfin eða missi ekki hárið en allt þetta andlega er til staðar sama hvað og í því þarf að vinna,“ segir Viktoría.

 

Aðstandenda námskeið fyrir börn og jafningjafræðslan mikilvægust

„Það sem hjálpaði mér mest hjá Ljósinu var tvennt. Annað var námskeiðið fyrir strákana mína sem eru 8 og 12 ára. Það hjálpaði þeim mikið að koma í Ljósið og kynnast umhverfinu. Efnistök á námskeiðinu eru líka mjög fjölbreytt og snýr að ýmsu í lífinu ekki einungis krabbameini. Hitt var jafningafræðslan þegar maður er nýgreindur og hittir stelpur á svipuðum aldri og maður sjálfur í hádegismat og í æfingasalnum. Þar hitti ég m.a. stelpur sem voru útskrifaðar og gat hugsað víst hún gat þetta get ég þetta líka. Ég kalla þessar stelpur krabbamentora vinkonur mínar enda var maður með margar spurningar varðandi aukaverkanir og og slíkt sem þær gátu veitt manni vitneskju um,“ segir Viktoría.

 

Sterkar fyrirmyndir mikilvægar

Viktoría Jensdóttir

Viktoría bendir á að við greiningu hafi sig langað  að heyra frá konum í atvinnulífinu sem höfðu sigrast á krabbameini og haldið áfram að byggja upp sinn frama. Gott væri að hafa slíkar fyrirmyndir til að horfa til sbr. Vigdísi Finnbogadóttur og Birnu Einarsdóttur.

„Ég er verkfræðingur og ung kona sem hugsa mikið um framann minn og langar til að ná langt. Þótt maður fái krabbamein slokknar ekki á því og ég var hrædd um hvort heilinn myndi vera sá sami eftir meðferð. Svolítið svipað eins og að loknu fæðingarorlofi. Ég einsetti mér því að gera allt sem í mínu valdi stæði til að halda mínu formi líkamlega og andlega. Það gerði ég með því að mæta í ræktina í Ljósinu og njóta þar leiðsagnar um hvað maður mætti gera hverju sinni, vera sjálf í ræktinni,hlaupa og ganga.

Varðandi þetta andlega setti ég í fyrstu mikla pressu á mig að læra hitt og þetta en heilinn var ekki þar svo ég hugsaði hvernig gæti ég haldið honum í lagi án þess að það væri starfstengt. Það hef ég gert t.d. með leirnum og með því að koma í Ljósið og hitta fólk sem er að ganga í gegnum nákvæmlega það sama. Þó maður eigi frábærar vinkonur fyrir langar mann ekki alltaf að tala um krabbameinið og þá er svo gott að geta leyft sér að vera algjörlega í því formi sem maður er hverju sinni í hópi þar sem allir skilja mann,“ segir Viktoría.

 

Ætlaði að massa þetta verkefni

Viktoría, sem starfar sem verkefnastjóri hjá Össuri, segist vissulega hafa ætlað að massa þetta verkefni og hafi hún í byrjun farið örlítið of geyst.

„Það hjálpaði mér mikið að fara til Matta markþjálfa í Ljósinu sem opnaði augu mín með svo einfaldri en góðri setningu sem var; Þú þarft ekki að gera neitt. Ég kaus að halda áfram að vinna svolítið með til að byrja með og fannst það gott og gat haft mína hentisemi í vinnunni. En eftir þennan tíma horfði ég allt öðruvísi á mitt veikindaleyfi og tók af mér þessa pressu sem ég hafði sett á mig. Mér leið miklu betur og eitt það besta sem ég gerði í ferlinu var að leita til markþjálfa og sálfræðinga. Það er nauðsynlegt í gegnum endurhæfinguna að ræða við hlutlausan aðila,“ segir Viktoría.

Tækifæri til að setja lífið á pásu

Viktoría segir að í dag líði sér ótrúlega vel og vinna nú ötullega að því að koma sér í form, borða hollt, sofa vel, hreyfa sig og hugsa hvernig hún sjái lífið fyrir sér þegar hún verði komin aftur út í lífið.

„Það er nefnilega eitt sem krabbamein gefur manni sem er það að maður fær aðeins að setja lífið á pásu og hugsa hvað er það sem gefur mér gildi, hvað vil ég rækta og eyða tíma í. Þetta fær mann til að hugsa mikið um lífið og nú er ég í raun í fyrsta sinn í fríi frá þessu og líður vel og nýt þess að vera með fjölskyldunni án þess að vera veik. Ég er að eðlisfari mjög bjartsýn og opin með þetta t.d. á Instagram og reyni eins og ég get að ýta frá mér óttanum sem vissulega blossar upp inn á milli.

Svo er ég orðin ein af þeim sem bendi fólki á að koma í Ljósið þó það sé ekki nema í hádegismat. Ég áttaði mig engan veginn á því hvað Ljósið væri stórt og þjónustan mikilvæg og yfirgripsmikil og hjálpaði mörgum áður en ég kom hingað inn sjálf,“ segir Viktoría að lokum.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.