Fremstu hjólreiðamenn Íslands hjóla fyrir hönd Ljóssins í Síminn Cyclothon

Fremstu hjólagarpar Íslands hjóla fyrir hönd Ljóssins í Síminn Cyclothon

Lið Ljóssins – Á myndina vantar Jón Inga

Fremstu hjólagarpar Íslands taka þátt í Síminn Cyclothon 2021 fyrir hönd Ljóssins endurhæfingarmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda.

Markmið Ljóssins með þátttöku í Síminn Cyclothon 2021 er að varpa ljósi á endurhæfingu krabbameinsgreindra og þá staðreynd að ungir karlmenn eru líklegri en aðrir hópar til að sleppa endurhæfingu þegar þeir greinast með krabbamein.

Einvalalið fyrir mikilvægt málefni

Lið Ljóssins í Síminn Cyclothon samanstendur af hópi bestu hjólara landsins en þeir eru Ingvar Ómarsson, Jón Ingi Sveinbjörnsson, Auðunn Gunnar Eiríksson, Þorsteinn Hallgrímsson, Hafsteinn Ægir Geirsson, Páll Elís, Hákon Hrafn Sigurðsson og Kristinn Jónsson.

„Ég held að þetta sé mjög þörf áminning til okkar karlanna sem erum oft meira innávið í öllum svona málum. Gamaldags karlmennskan þar sem allt er tekið á kassan og ekki talað um vandamálin er eitthvað sem við þurfum að útrýma, og ég er mjög stoltur af að því að fá að setja mitt nafn við það.“ segir einn af forsprökkum verkefnisins, Þorsteinn Hallgrímsson.

Svarti húmorinn er oft leiðarljósið

Verkefnið nýtur einnig stuðnings Hugleiks Dagsonar sem hefur að þessu tilefni gefið út fimm teikningar sem sérstaklega eru tileinkaðar hugarfari karlmanna. Eitt af verkunum hefur ratað á bol sem kemur í sölu í takmörkuðu magni á næstu dögum.

„Það er algengt að menn grípi í svarta húmorinn í þessu ferli. Við fengum nokkra sem sótt hafa þjónustu til að gefa okkur nokkrar línur fyrir Hugleik að vinna með og hann hefur sannarlega unnið vel með það“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins.

Endurhæfing er Annað en þú heldur

Yfirskrift verkefnisins er Annað en þú heldur sem vísar til ummæla ungra karlmanna sem sótt hafa endurhæfinguna.

Margrét Arna, íþróttafræðingur í Ljósinu

„Meðferð við krabbameini getur verið mjög erfið fyrir líkama þinn og geð. Því fyrr sem þú hefur endurhæfingu, því fyrr byrjar þú að tækla þessa þætti.“ segir Margrét Arna Arnardóttir, íþróttafræðingur í Ljósinu. „Markmið okkar með þátttökunni er að skapa samtal við þennan aldurshóp og leyfa okkur skilgreina að nýju hvað endurhæfing er í raun. Endurhæfing er ekki eitthvað sem þú þarft þegar þú kemst á endapunkt. Endurhæfing hefst við greiningu og hún virkar. Hún er þannig í sjálfu sér allt annað en þú heldur.“

Við hvetjum alla til að setja LIKE við samfélagsmiðla verkefnisins og deila færslum af síðunni og auðvitað fylgjast með liðinu okkar hjóla hringinn í kringum landið í nafni endurhæfingar fyrir unga karlmenn.

https://www.facebook.com/annadenthuheldur

https://www.instagram.com/annadenthuheldur/

https://twitter.com/annadentuheldur

Frekari upplýsingar má finna á www.annaðenþúheldur.is

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.