Nýrri herferð Ljóssins hrint af stað í dag

Eliza Reid forsetafrú hrinti af stað ljósavinaherferð fullri af þakklæti í Ljósinu í dag. Herferðin ber yfirskriftina „Þinn stuðningur er okkar endurhæfing“ og leggur áherslu á þakklætið sem þjónustuþegar Ljóssins finna til þeirra sem styðja Ljósið, svokallaða Ljósavini.

„Ljósavinir eru lykilþáttur í rekstri Ljóssins og við finnum fyrir svo ótrúlega miklu þakklæti til þeirra frá þeim einstaklingum og aðstandendum sem nýta sér þjónustu Ljóssins. Því fannst okkur kjörið að það yrði kjarninn í herferðinni.“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, kynningarstjóri Ljóssins.

Leikstjóri herferðarinnar er Ninna Pálmadóttir, en hún nam leikstjórn í NYU Tisch School of the Arts, og hlaut hún Edduna fyrir myndina Paperboy.

Aukinn fjöldi þjónustuþega kallar á aukinn fjárhagslegan stuðning

Ljósið er endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda en einnig veitir Ljósið aðstandendum stuðning og fræðslu. Í maí 2021 sóttu tæplega 600 manns þjónustu í Ljósið.

„Sá fjöldi sem til okkar sækir endurhæfingu eykst með hverjum mánuðinum. Við erum sífellt að þróa þjónustuleiðir og –framboð og treystum í þeirri vinnu áfram á grasrótina í Ljósinu, Ljósavinina, sem stutt hafa dyggilega við bak okkar. Þeir hafa aldrei verið mikilvægari.“ segir Erna Magnúsdóttir, stofnandi Ljóssins.

Takk allir sem komu til okkar á Langholtsveginn í dag, allir sem tóku þátt á Facebook og auðvitað allir Ljósavinir fyrir ykkar framlag.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.