Minni og einbeiting

Eftir Guðnýju Katrínu iðjuþjálfa

 

Guðný Katrín

Vandamál með minni og einbeitingu eru algeng meðal þeirra sem eru í eða hafa nýlokið krabbameinsmeðferð. Fyrirbærið hefur gjarna verið kallað „chemo brain“, stundum heilaþoka á íslensku. Þessi vandi á þó ekki eingöngu við þá sem fara í krabbameinslyfjameðferð og er einnig talinn tengjast því álagi og streitu sem fylgir greiningu og meðferð krabbameins.

 

Hvað er heilaþoka?

Margir taka eftir því að vera gleymnari og eiga erfiðara með að taka ákvarðanir eftir að hafa gengið í gengum meðferð.

Helstu einkenni eru:

  • Erfiðleikar við að halda einbeitingu við verkefni, sérstaklega við að sinna mörgu í einu (multitasking)
  • Slæmt skammtímaminni
  • Erfitt að halda athygli yfir lengri tíma
  • Upplifa þreytu
  • Upplifa sig ringlaðan / ráðvilltann
  • Erfiðleikar með að finna rétt orð þegar eru að tjá sig munnlega eða skriflega
  • Erfiðleikar með að klára dagleg verkefni
  • Finnast erfitt að tileinka sér nýja færni
  • Finnast maður vera óskipulagðari en venjulega

Margt virðist geta valdið eða aukið á þessi einkenni: meðferðin, álag sem sjúkdómnum fylgir, ójafnvægi í hormónastarfsemi, ýmis lyf, ofþornun, slæmur svefn og næring, þunglyndi og mikil þreyta.

Hjá flestum minnkar heilaþokan fljótlega eftir meðferðarlok, en hún er þó stundum viðvarandi í nokkra mánuði eða jafnvel lengur.

 

Hvernig er best að fást við einbeitingar- og minnisvanda?

Í raun er engin sértæk meðferð við heilaþoku. Aftur á móti eru til ráð og meðferðir við mörgum þeim aukaverkunum meðferðar sem gera minnisleysið verra, s.s. blóðleysi, hormónabreytingar, svefnleysi, þunglyndi og streita. Þetta eru þættir sem auka á minnisvandann og má hafa áhrif á.

  • Talaðu við meðferðarteymið þitt um minnisvandann. Skrifaðu niður einkenni og áhrif á daglegt líf. E.t.v. er hægt að meðhöndla aukaverkanir og ýmsa áhrifaþætti
  • Hreyfing getur dregið úr streitu, þreytu og þunglyndi,  nýjar rannasóknir sýna að hreyfing getur einnig bætt minni hjá fólki í krabbameinsmeðferð.
  • Vökvainntaka:  Jafnvel mild ofþornun getur haft áhrif á minni og einbeitingu. Passaðu upp á að drekka nóg að vatni (nema þú hafir fengið fyrirmæli læknis um að takmarka vökva)
  • Skrá og skilja: Reyndu að koma auga á mynstur, hvenær ertu sérlega ringlaður, er það þegar þú ert þreyttur, svangur, stressaður, þegar það er mikill hávaði og læti í kringum þig? Reyndu að aðlaga þig og taka mið af þessum þáttum þegar þú hefur þörf fyrir að einbeita þér að einhverju.
  • Minnisaðstoð: Notaðu minnislista, dagbók og áminningar í síma til að hjálpa þér. Settu mikilvæga hluti eins og lyklana á sama stað á hverjum degi. Hægt er að nota ýmis konar minnishjálp í símanum, sem hjálp til að halda utan um daglega rútínu, s.s. að taka lyf á réttum tíma.
  • Heilaþjálfun: Leysa krossgátur, sudoku, lesa smám saman meira krefjandi texta og heilaþjálfunaröpp geta hugsanlega bætt tengingarnar í heilanum. Að prófa nýja hluti, prjóna, fara eftir uppskrift reynir allt á heilann og einbeitinguna.
  • Svefn: Að fá nægan og góðan svefn er mikilvægt fyrir minni og einbeitingu, styrkir þig bæði líkamlega og andlega.
  • Næring: Hollt og vel samsett fæði getur bætt andlega og líkamlega líðan, dregið úr þreytu og blóðsykur helst stöðugri. Allt þetta hjálpar til við að bæta minni og einbeitingu.
  • Draga úr streitu og stunda ánægjulega iðju. Læra og nota slökunar- og hugleiðsluaðferðir, því að þegar við erum í streituástandi festist lítið í minni okkar og einbeitingin er enn slakari.
  • Vertu hreinskilinn: Það er aukið álag að reyna að fela minnisvandann. Láttu fjölskyldu og vini vita um vandann, þetta sé að líkindum tímabundinn vandi en þér þætti vænt um aðstoð og skilning þeirra.
  • Hafðu tilveruna viðráðanlega: Ætlaðu þér af, gerðu einn hlut í einu og einbeittu þér að honum, einfaldaður verkefnin og skipulegðu þig. Gerðu það sem er mest krefjandi þegar þú ert vel upplagður.
  • Sýndu þér góðvild: Reyndu að einblína ekki um of á minnisvandann. Mundu að þetta er tímabundið ástand og þú ert að gera þitt besta

 

Byggt á /þýtt og staðfært:

Memory and concentration | Maggie’s

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.