Áhrif krabbameinsgreiningar á líkamsvitundina

Eftir Helgu Jónu Sigurðardóttur iðjuþjálfa

 

Helga Jóna Sigurðardóttir

Sumir upplifa trega og kvíða yfir líkamlegum breytingum vegna krabbameinsmeðferðar, eins og t.d. að missa hárið. Aðrir líta á að breyting á útliti muni ekki eða ættu ekki að hafa áhrif á líkamsvitund og sjálfsmynd þeirra. Síðar í ferlinu getur komið upp að útlits- og líkamlegar breytingar hafa áhrif á hvernig manneskjan hugsar og líður með sjálfa sig. Þá er oft erfitt að takast á við það verkefni eða ræða um það.

Mikilvægt er að vekja athygli á þessari umræðu. Krabbameinsmeðferð getur haft í för með sér tímabundnar eða varanlegar líkamlegar breytingar. Líðan og upplifun þín á líkamann þínum getur líka breyst frá því hvað þér fannst um hann áður. Þekking á áhrifum meðferða getur styrkt þig í að takast á við þær breytingar.

Líkamsímynd er sú sýn og trú á útlit þitt óháð hvernig aðrir sjá þig. Hún getur verið jákvæð eða neikvæð en mikilvægt er að hafa í huga að líkami þinn er aðeins hluti af því hver þú ert sem heil manneskja. Ef þú einblínir á hvernig líkami þinn lítur út gætir þú verið að horfa framhjá styrkleikum þínum, sýn á lífið og hæfileikum sem þú býrð yfir.

Varanlegar og tímabundnar breytingar geta bæði verið sýnilegar og ekki. Hvort heldur sem er geta þessar breytingar haft áhrif á þig vegna þess að líkamsímyndin tengist þinni sjálfsmynd ekki hvernig aðrir sjá þig. Þó að þú lítir nákvæmlega eins út og þú gerðir áður en þú greindist getur þú upplifað óöryggi og óvissu og fundist þú ekki vera sama manneskja og áður.

Tímabundnar breytingar: Hármissir, þyngdartap, þyngdaraukning.

Varanlegar breytingar: Ör frá skurðaaðgerð og/eða geislameðferð, húðflúramerkingar, aflimanir, varanleg stóma, ófrjósemi.

 

Aðlögun að líkamlegum breytingum og nýju útliti.

Að greinast með krabbamein og að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð hefur mismunandi áhrif á fólk og það sama má segja með útlitsbreytingar. Breytingar á líkama getur t.d. orðið hindrun í því eða ástæða þess að þú getir ekki unnið við það sem þú hefur ánægju af og jafnvel smærri breytingar geta haft áhrif á breytt lífsgæði.

Hvernig við upplifum og tökumst á við þær breytingar og hvort sem við bregðumst við með neikvæðu eða jákvæðu hugarfari getur það alltaf  hróflað við sjálfsmyndinni. Varanlegar breytingar geta verið stöðug áminning um að lífið er öðruvísi. Að vinna að því að styrkja jákvæða líkamsímynd getur ýtt undir að þú hafir minni áhyggjur af viðbrögðum annarra og því hvað öðrum finnst.

 

Einkenni neikvæðar líkamsímyndar:

  • Þig langar ekki að fara út úr húsi vegna þess að þú vilt ekki að aðrir sjá þig
  • Þig langar ekki að hitta eða kynnast nýju fólki
  • Þú finnur fyrir feimni við nánd og kynlíf með maka
  • Þú hræðist það að klæða þig úr fyrir framan maka þinn
  • Þú vilt ekki sína maka þínum örin þín
  • Þú skammast þín fyrir að hafa bætt á þig eða misst mörg kíló
  • Þú skammast þín fyrir að vera með krabbamein
  • Þú átt erfitt með að sættast við hver þú ert núna

 

Hvernig á ég að bæta líkamsímynd sína?

Gefðu þér tíma til að aðlagast þeim breytingum sem hafa orðið og til að kynnast þér aftur. Með tímanum og í aðlögunarferlinu getur sýn þín á líkamann breyst og orðið betri.

Að leggja sig fram um að þekkja styrkleika sína og einbeita sér að jákvæðu hugarfari umfram líkamlegt útlit getur hjálpað til við að bæta líkamsímyndina.

Gott getur verið að deila reynslu sinni í öruggu umhverfi eins og með öðrum jafningjum, t.d. á námskeiðum og í jafningjahópum Ljóssins. Læra nýjar leiðir til að takast á við erfiðar aðstæður og tala um tilfinningar sínar. Það eru ekki allir sem aðlagast eins að nýjum útlitsbreytingum. Allir takast á við breytingar á sinn hátt vegna persónulegra reynslu. Hinsvegar geturðu lært af öðrum aðferðir sem hafa nýst þeim að bæta líkamsímynd þeirra og jafnframt skilið betur þinn líkama eftir þær breytingar sem hafa orðið.

 

Hvernig þú eykur sjálfstraust varðandi eigin líkamsímynd?

  • Vertu í fötum sem þér líður vel í
  • Vertu með fólki sem þér líður vel með og taka þér eins og þú ert
  • Talaðu við aðra sem deila reynslu þinni
  • Leitaðu þér faglegrar aðstoðar
  • Passaðu upp á heilbrigt jafnvægi á milli hreyfingar og næringar

Rannsóknir hafa sýnt að aukin líkamsvitund (Body Scheme) getur aukið tilfinninguna fyrir líkama þínum, aukið jafnvægi milli innri líkama og ytra umhverfis, losað um spennu og aukið vellíðan. Líkamsvitund er; að hafa tilfinningu fyrir líkama og afstöðu líkamshluta hvers og eins

Hægt er að auka líkamsvitund með hreyfingu, nuddi, slökun og Grounding. Fagaðilar Ljóssins eru tilbúnir að leiðbeina þér að meiri líkamsvitund og betri líkamsímynd.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.