Vegan veisla til góðs

Ella, ásamt dóttur sinni, afhendir Sólveig K. Pálsdóttur, kynningarstjóra Ljóssins styrkinn

Elín Kristín Guðmundsdóttir, eða Ella eins og hún er yfirleitt kölluð, greindist með brjóstakrabbamein árið 2018. Hluti af ferli Ellu var endurhæfing í Ljósinu, en hún segist ekki geta þakkað nægsamlega þá þjónustu sem hún fékk þar, fagmennskan var fram í fingurgóma. Ljósið er henni afar kært, þar kynntist hún góðu starfi, byggði sig upp líkamlega og andlega, borðaði yndislegan mat ásamt því að hitta aðra í sömu stöðu sem er mikilvægur þáttur í ferlinu.

Nú hefur Ella sett á laggirnar nýtt vörumerki undir nafninu Ella Stína. Þar framleiðir hún vegan buff sem hafa verið í þróun undanfarin misseri. Buffin eru hugarfóstur hennar, en hana fannst vanta góð og hrein buff á vegan markaðinn sem nýta má í t.d borgara, pítur, vefjur, pítsur eða salatið. Til að þakka fyrir góða þjónustu afhenti Ella Ljósinu ágóða af sölu fyrstu 100 pakkningana síðastliðinn föstudag.

 

Sannfærð um ávinning jurtafæðu

Fram að greiningu hafði Ella lifað heilsusamlegu lífi, hreyfði sig reglulega og borðaði hollan mat. Gáttuð á nýjum aðstæðum velti Ella fyrir sér hvernig hraust kona í góðu formi gæti fengið krabbamein. Fljótlega eftir greiningu hefur  gömul vinkona að nafni Elín Skúladóttir samband við Ellu en hún hafði haft spurnir af veikindum hennar. Ráðleggingar Elínar fólust í því að breyta alfarið um mataræði. Hún sagði það skipta sköpum í líkamlegu uppbyggingunni og batanum. Borða einungis úr plönturíkinu, og að skynsamlegast væri að taka út eina og eina fæðutegund í einu.

Ella er framkvæmdarmanneskja mikil og tvínónar yfirleitt ekki við hlutina og vatt sér að sjálfsögðu í málið og gerðist vegan einn, tveir og bingó.  Hún segist hafa verið á ferðalagi plöntufæðisins síðan 2018 og er sannfærð um að það hafi gert henni gott. Hefur hún losnað við ýmsa kvilla sem áður hrjáðu hana, má þar nefna bólgur og óreglulegur svefn. Þessu þakkar hún að stórum hluta mataræðinu. Ella er laus við krabbameinið í dag.

 

Vildi gefa til baka

Buffin má matreiða á ýmsa vegu, hér í girnilegum hamborgara.

Ella sagði eitt sinn í endurhæfingunni í Ljósinu að hún ætlaði sér að borga til baka til Ljóssins og þakka fyrir sig með því að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. “Eitt af mínum verkefnum og markmiði var að gefa til baka það sem ég fékk í Ljósinu. Ég hafði alltaf hugsað sér að hlaupa fyrir Ljósið, en á erfitt með hlaup eftir krabbameinið. Það var í raun tilfinningalegt prinsipp mál fyrir mig að gefa til baka vegna þess að ég er búin að fá svo mikið. Mér fannst ég verða að gefa virkilega af mér sjálfri, ekki bara leggja aur inn”.

 

Lærdómsríkt ferli

Nú hefur hún sett á laggirnar nýtt vörumerki undir nafninu Ella Stína eins og áður segir. Hún segist ekki sakna þess að fá steikina um jólin, en að hana hafi langað mikið að geta grillað sér góðan vegan borgara.

Ferlið hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt, en áður en lagt var af stað í þessa vegferð hafði hún ekki grænan grun um hvað liggur að baki lotunúmerum og strikamerkjum. Matreiðsla hefur alltaf legið vel fyrir henni, það hefði eflaust engan órað fyrir að hún færi í vöruþróun og framleiðslu á vegan matvöru, þar sem hennar starfsvettvangur hefur legið í mannauðnum. Buffin eru komin í sölu en þau eru seld 4 í pakka og þegar komin í ýmsar verslanir.

 

Ágóði fyrstu 100 pakkninganna óskiptur til Ljóssins

Árið 2019 ferðaðist Ella til Costa Rica þar sem hún  kynntist plöntufæði og stresslausara lífi. Þaðan kemur kveikjan af letidýrinu í vörumerkinu

Hún hefur ekki haft undan að framleiða upp í pantanir, sem segir sitthvað um gæði vörunnar. Ágóðinn af fyrstu 100 seldu buffpakkningunum rann óskiptur til Ljóssins og er það hennar ósk að styrkja sérstaklega þá þætti sem nýttust henni hvað best. Það er annarsvegar líkamleg endurhæfing í tækjasal Ljóssins þar sem líkaminn var byggður upp. Hinsvegar markþjálfunin sem gaf henni verkfæri til að vinna markvisst að næstu skrefum í sínu lífi. Það er henni hjartans mál að peningurinn nýtist í frekari tækjakaup, aðstöðu eða annað sem styður undir þessi góðu málefni. Þannig vil hun borga með sínum hætti þann dýrmæta stuðning og styrk sem Ljósið gaf henni á þessu erfiða tímabili.

Veganbuffin fást í Veganbúðinni, Melabúðinni, Kjötbúðinni Grensásvegi, Gott og blessað, Bergsson og Hagkaup. Nú er að næla sér í gómsæt og næringarrík veganbuff.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.