Eftir Guðrúnu Áslaugu Einarsdóttur

Hlátur er eitt af því sem gerir okkur einstök. Það er misjafnt hve oft við hlæjum og við hvaða aðstæður. Sumir hlæja hátt, í öðrum heyrist varla. Aðrir hlæja á innsoginu og í sumum ískrar. En hvernig sem hláturinn okkar er, þá tengist hann vellíðan og ánægju.

Á síðari árum hefur vitund um gildi hláturs aukist. Rannsóknir hafa sýnt að hlátur getur verið heilsubætandi á ýmsan hátt. Það er vitað að blóðflæði í líkamanum eykst þegar við hlæjum, súrefnisupptaka batnar, blóðþrýstingur og spenna í vöðvum lækkar.

 

Fræðilega hliðin

Rannsóknir sýna einnig að börn hlæja mun oftar en fullorðnir, þó ekki sé vitað um ástæðuna. Ein þeirra gæti t.d. verið að um tíma var hlátur talinn ógáfulegur, janvel heimskulegur. Lífið er jú alvarlegt og ekki passandi að fullorðinn einstaklingur sýni slíka léttúð.

Það var geðlæknir að nafni Norman Cousin sem skrifaði fyrstur um gildi hláturs á heilsu í bók sinni: ,,Anatomy of illness” árið 1979. Hann fékk vægast sagt dræmar viðtökur hjá sínum samstarfsmönnum en síðan hefur skilningur aukist og viðhorf breyst. Nú er viðurkennt að hlátur hefur góð áhrif á ónæmiskerfið og ver okkur gegn streitu. Í samskiptum getur hlátur einnig létt andrúmsloft, hjálpað til við tengsl og brotið ísinn í óþægilegum aðstæðum.

 

Aukum við hláturinn

Ef við viljum auka við hlátur í lífi okkar er mikilvægt að leita eftir því sem fær okkur til að hlæja. Horfa t.d. á gamanmyndir, lesa brandara eða annað skemmtiefni. Þannig lærum við inn á húmorinn okkar og getum smátt og smátt aukið léttleika og gleði í daglegu lífi. Í Ljósinu hefur alltaf verið lögð áhersla á léttleika og jákvætt andrúmsloft. Viðhorfið er að það er í lagi að hlæja og hafa gaman þrátt fyrir alvarleika lífsins.

Sören Kirkegaard er þekktur danskur heimspekingur sem skrifaði margar bækur um lífsgátuna en sagði einnig: ,,Ég vona það eitt að ég megi alltaf hafa hláturinn mín megin.”
Það vona ég líka að verði hjá mér.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.