Að leggja af stað, á tómum tanki?

Eftir Önnu Sigríði Jónsdóttur iðjuþjálfa

Anna Sigríður Jónsdóttir

Krabbameinsmeðferð getur verið alls konar. Sama hver greiningin er getur meðferðin verið breytileg og mismunandi eftir einstaklingum, aðgerð eða aðgerðir, lyf, geislar, eitt, tvennt eða allt þrennt. Allt ferlið tekur líka mislangan tíma, frá því að þú finnur að það er eitthvað að (eða finnur ekki fyrir neinu) þangað til þú færð greiningu, byrjar meðferð og klárar hana. Það er engin ein leið og eitt algengasta orðið í krabbameinsmeðferðarferlinu er örugglega orðið „einstaklingsbundið“.

 

Ekkert auðvelt krabbamein

Krabbameinsgreining í sjálfu sér er alltaf erfið og það er ekkert til sem heitir „auðvelt krabbamein“. Það er þó mismunandi hversu mikið dregur af fólki í meðferðarferlinu. Öll hreyfing hjálpar til að viðhalda vöðvamassa, minnka áhrif aukaverkana og fólk er fljótara að jafna sig. En sama hvað fólk gerir í meðferðinni er einhver endurhæfing yfirleitt nauðsynleg í kjölfar hennar. Kannski til að byggja upp þol, takast á við kvíða eða depurð, auka liðleika, auka daglega virkni eða allt ofantalið.

 

Endurhæfingin

Meðferðin getur reynt á andlega, líkamlega og félagslega og það má eiginlega segja að þú sért á botninum þegar hennar lýkur. Þá hefst tími uppbyggingar, en hvernig ferðu af stað ef þú hefur ekki orku? Stundum er sagt að það taki minnst jafn langan tíma að jafna sig eftir flensu eins og veikindin vörðu. Krabbameinsmeðferð er oft langvarandi og því eðlilegt að uppbygging og endurhæfing taki tíma. Það er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í endurhæfingu bæði andlega og líkamlega til að vera betur undir það búinn að fara aftur út í lífið á sem bestan máta. Þá er mikilvægt að hafa eigin væntingar í huga, hlusta á eigin þarfir og setja sér raunhæf markmið sem hægt er að ná.  Í Ljósinu gefst þér tækifæri til að hitta fagaðila sem gefa þér færi á að ræða tilfinningar þínar og þarfir og geta ráðlagt þér um þína endurhæfingu.

 

Bara í endurhæfingu

Margir fá samviskubit yfir að hafa verið lengi frá vinnu og langar til að komast aftur í rútínu. Það getur verið persónubundið hvenær best er að snúa aftur til vinnu og fer líka eftir vinnunni. Í sumum tilfellum velur fólk að hafa vinnuna sem hluta af sinni endurhæfingu. Yfirleitt er betra að gefa sér aðeins lengri tíma í endurhæfinguna en mörgum finnst erfitt að vera bara í endurhæfingu og að það sé best að fara aftur að vinna sem allra, allra fyrst.

En það er ekkert bara við endurhæfingu. Vinna er tæknilega léttari en endurhæfing, þú færð að fara heim eftir vinnudaginn og slappa af. Þú færð helgarfrí. Í endurhæfingu ferðu að sofa í endurhæfingu og vaknar í endurhæfingu. En í endurhæfingunni færðu að vinna í samræmi við orkubirgðarnar.

 

Orkan og endurhæfing

Þú getur átt rólega daga og erfiða daga í endurhæfingu, en þú ræður þeim. Þú færð tíma fyrir þig og tækifæri til að átta þig á hvað þú vilt gera. Þú færð tækifæri til að skoða áhugamál sem þig hefur langað til að prufa en ekki haft tíma eða tækifæri til áður. Það er ömurlegt að vera orkulaus en ef þú hefur ekki orku til að gera allt, hvað er mikilvægast að gera? Hvað skiptir þig svo miklu máli að þú vilt fara að gera það sem fyrst?

 

Haltu áfram

Ferðalag byrjar á einu skrefi og bók á einu orði. Þú verður að setja markmið sem eru raunhæf til að þú missir ekki móðinn. Ef þú getur labbað út götuna og til baka í dag getur verið á brattann að sækja að hlaupa 5 km eftir 2 mánuði. Ef þú ferð út götuna í dag gætir þú farið tvær ferðir í næstu viku. Lykilatriði í endurhæfingu er að byrja hægt, en halda alltaf áfram. Orkan er mismikil eftir dögum og ef þú gerir of mikið einn daginn er viðbúið að þú þurfir að gera minna þann næsta. Endurhæfing er ekki línulegt ferli þannig að það munu vera góðir dagar og slæmir dagar. Að eiga slæman dag þýðir ekki að þú sért að byrja uppá nýtt. Þú ferð ekki aftur á þann stað sem þú varst strax eftir meðferðina þó að það verði bakslag. Þú tekur þér bara smá pásu, gengur út götuna og til baka einu sinni, hvílir þig vel á eftir og ferð tvær ferðir á morgun.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.