Það þarf sterk bein til að þola góða daga

Eftir Önnu Sigríði Jónsdóttur iðjuþjálfa

Anna Sigríður Jónsdóttir

Hefur þú nýlokið krabbameinsmeðferð? Upplifir þú tilfinningar sem þér finnst ekki viðeigandi?  Finnst þér að þér eigi að líða öðruvísi?  

Margir eru ánægðir og finna fyrir létti þegar krabbameinsmeðferðinni lýkur en eru jafnframt óöruggir og kvíðnir.

Í lausu lofti

Það er vissulega gott að vera laus við allt sem fylgir meðferðinni. Þú þarft ekki alltaf að vera uppá spítala, ert laus úr þeirri “gjörgæslu” sem krabbameinsmeðferðin getur verið og ekki undir stöðugu eftirliti. Þú þarft ekki lengur að hitta lækna og hjúkrunarfræðinga reglulega, þú þarft ekki að fylgjast með dagatalinu til að missa ekki af bókuðum tímum og sleppur við að vera alltaf að mæta eitthvert. En samt ertu smá í lausu lofti.

Óöryggi og kvíði eru alls ekki óeðlilegar tilfinningar við lok krabbameinsmeðferðar og við iðjuþjálfar Ljóssins heyrum slíkar hugrenningar hjá mörgum í viðtölum hjá okkur:

  • Ég útskrifast og auðvitað er það gott. Er það ekki?
  • Ég á ekki tíma fyrr en eftir þrjá mánuði. Það er sannarlega léttir, en hvað ef það gerist eitthvað í millitíðinni?
  • Hvað ef ég finn fyrir einhverjum einkennum eða held að eitthvað sé ekki eins og það á að vera?
  • Hvað ef eitthvað fer úrskeiðis?  

Orkan hefur öll farið í að sinna meðferðinni, að komast í gegnum hana, og þegar henni lýkur skapast hjá mörgum rými til að hleypa þessum og fleiri áleitnum spurningum að.  

Hvar er hamingjan?

Þú hefur hlakkað til að ljúka meðferðinni en finnur samt ekki þá gleði og ánægju sem þú bjóst við. Fólk í kringum þig óskar þér til hamingju með meðferðarlokin og hafa væntingar um að þá sé þetta bara komið og að allt verði gott um leið.  

Það getur verið erfitt að takast á við spurningar eins og: Er þetta ekki búið núna? Gekk ekki allt vel? Er ekki léttir að klára þetta?, þegar líðanin er enn þannig að þér finnst þú bæði veikburða  og orkulaus. Við bætist óöryggið sem fylgir því að vera ekki með fastan aðgang að öryggisnetinu sem allir þessir tímar á Landspítalanum og eftirlitið skapaði.   

Fáðu aðstoð

Oftast er gott samband við þann hjúkrunarfræðing sem hefur haft umsjón með þinni meðferð á spítalanum og hægt að hringja í hann og leita ráða, eða fá tíma hjá lækni. Það er betra að fá svör við spurningum fljótt, frekar en að bíða og líða illa í langan tíma. 

Talaðu við aðra sem eru í svipuðum sporum til að finna á eigin skinni að fleiri hafi verið í þínum sporum og að líða illa einmitt þegar þér ætti að líða svo vel er eðlilegt. Óöryggi, kvíði og depurð við lok meðferðar eru tilfinningar sem margir finna fyrir en þær líða hjá. 

Það þarf sterk bein til að þola góða daga á vel við í lok meðferðar. Það er erfitt að finna fyrir gleði og ánægju þegar þú ert orkulaus eftir allt sem hefur gengið á undanfarið. En að lokinni meðferð hefst uppbygging og orkan mun aukast, það verður auðveldara að þola góða daga og óöryggið og kvíðinn mun minnka með tímanum.  

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.