Af líkamsgerð og týpum

eftir Brynju Árnadóttur, heilsunuddara 

Brynja Árnadóttir

Mig langar að deila með ykkur hugmyndum úr kínverskri læknisfræði. Þar er horft á manneskjuna og mannslíkamann út frá fimm eiginleikum eða fösum, og hvernig við erum partur af náttúrunni.

Þessir fasar eru: Vatn, eldur, jörð, viður og málmur

Hvert og eitt okkar hefur að geyma alla þessa fasa en þegar við rýnum í einstaklinga er skemmtilegt að sjá hvað sumir eru með einn eða tvo ríkjandi fasa.

En hvernig lýsa þessir fasar sér? Hér á eftir ætla ég að telja upp líkamsgerð og persónuleikaeinkenni hvers fasa fyrir sig:

Málm-fasi:

Einstaklingar með sterka málmeiginleika eru oft frekar innhverfir, rökhugsandi, skortir jafnvel persónulegt sjálfstraust eða hafa djúpt tilfinningasár. Þeir draga brjóstkassann inn til að verja viðkvæmni sína, treysta og lifa í hugsunum, hafa tilhneigingu til að sundurgreina og vilja skýra og skilja. Þeir vilja hafa hreint í kringum sig og í huganum, og detta oft í að fullkomna mataræði sitt samkvæmt nýjustu fræðum.

Þessi líkamsgerð er oft beinaber með ljósa húð og mikið af fæðingarblettum, og breiðar axlir. Það er eins og þessir einstaklingar gangi á beinunum í staðinn fyrir að nota vöðvana og stíga jafnvel frekar fast í hælana. Röddin er þýð og líffæri sem tengd eru málminum eru lungu og ristill.

Málmorkan leitar inn á við og árstíð málmsins er haust.

 

Vatns-fasi:

Einstaklingarnir með ríkjandi vatnsfasa eru oft rólegir með mjúkar hreyfingar og heyrist ekki mikið í þeim nema að þeir séu að tala. Geta verið stjórnsamir en samt hlutlausir og festast ekki mikið í skoðunum. Þetta eru djúpir pælarar og eru nægjusamir og sjálfstæðir. Þeir hafa þörf fyrir einveru og frið til að líta inn á við og eru mjög þolinmóðir. Þeir eru náttúrulega latir.

Þessi líkamsgerð er með langa hryggsúlu, kringluleitt andlit og dökkt hár, vöðvarnir eru mjúkir og langir, er gjarnan með dökka bauga undir augum og djúpa ráma rödd (groaning voice). Líffæri tengd vatninu eru blaðra og nýru.

Vatnsorkan leitar inn og niður og árstíðin er vetur.

 

Viðar-fasi:

Þessi einstaklingur er jarðbundinn. Þetta er íþróttatýpan með sterklegan og sinaberan kropp. Hann elskar að gera plön og lifir fyrir framtíðina og hefur mikið keppnisskap. Hann virðist alltaf alveg að vera að ná lífi sínu saman og einfalda málin. Þetta er skapmikið fólk með miklar tilfinningar og það fer mikið fyrir því. Svolítið egóískir og hika ekki við að tjá sig og deila skapi sínu með öðrum.

Göngulagið er ákveðið og þeir nota vöðvana (eru með góða líkamsmeðvitund). Þeir eiga það til að klára orkuna sína vegna kappsemi. Vefirnir eru „djúsí“ en oft aumir djúpt niðri. Röddin er hvell (shouting) og líffæri tengd viðnum eru lifur og gallblaðra.

Viðarorkan leitar upp og út og árstíðin er vor.

 

Eld-fasi:

Eld einstaklingar eru opnir, lifandi, hressir og fjörugir. Þeir hafa sköpunargáfu og elska að tjá sig. Þetta eru oft leikarar og listamenn. Listrænir, hrifnæmir og elska fallega hluti. Þeir eru líka ljóðrænir og hafa gaman af hugsjónum, máli og orðum. Það er oft stutt í dillandi hlátur (eins og við heyrum oft í Ljósinu).

Beinabyggingin er fíngerð, grannar axlir og breiðari neðri parturinn eða dropalaga vöxtur. Þunnt fíngert hár hjá konum og jafnvel skalli hjá körlum. Röddin er hlæjandi og líffæri eldsins eru hjarta og gollurshús.

Eld einstaklingar þurfa að þjálfa líkamsmeðvitund og passa fæturna sína því öll orkan leitar upp. Árstíðin er sumar.

 

Jarðar-fasi:

Jarðareinstaklingurinn er vinalegur og tekur oft að sér það hlutverk að sjá um alla í kringum sig. Þeir hafa oft áhyggjur af öllum í „sinni umsjá“. Kunna ekki að leyfa öðrum að finna sína leið. Hafa sterka tilhneigingu til að gera plön sem ganga ekki upp, taka tvö skref fram og svo tvö aftur á bak. Þeir hafa ferkantað vaxtarlag og eru oft með breiða kjálka og þykkar varir. Róleg náttúrubörn sem elska að dunda sér, sérstaklega við garðyrkju og að rækta sinn eigin mat.

Þetta eru oftast holdmiklir einstaklingar en bera það betur en aðrir. Þeir verða sjaldnast grannir og eru frekar stórbeinóttir með þétta og stífa vefi. Jörðin nostrar við heimilið og fjölskylduna og á oft erfitt með að aðgreina sig frá foreldra- og heimilishlutverki. Röddin er syngjandi og orkan fer í hringi (snýst í kringum sjálfa sig).

Árstíðin hjá jörðinni er síðsumar og líffæri tengd jarðar-fasanum eru magi og milta.

Farið vel með ykkur og við sjáumst vonandi sem fyrst aftur í Ljósinu

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.