Ertu stirður?

eftir Örnu Arnardóttur

Rými og tími til að gefa eftir

Flest vitum við að líkaminn er samsettur úr vöðvum, beinum, líffærum, sinum, taugum og alls konar vefjum. Þegar við gerum jóga eða teygjum er gjarnan talað um vöðvateygjur, sem er að hluta til rétt, en þetta er ekki alveg svo einfalt.

Allar hreyfingar stjórnast af taugakerfinu en það skiptist í miðtaugakerfi og úttaugakerfi. Skilaboð berast til heila um að við viljum framkvæma ákveðna hreyfingu, heilinn sendir þá til baka taugaboð sem eiga að framkvæma hreyfinguna, svo sem til vöðva og liða á viðkomandi svæði. Ef við gerum hreyfingar sem líkaminn er ekki vanur, til dæmis teygjur, getur heilinn sent út þau skilaboð að um einhvers konar ógn sé að ræða og vöðvakerfin geta þá stífnað upp til að verja líkamann gegn meiðslum.

Þess vegna þarf líkaminn rými og tíma til að gefa eftir. Taugakerfið fær þá tíma til að átta sig á að engin hætta sé á ferðum og vöðvunum berast skilaboð um að slaka á og fara lengra inn í teygjurnar. Til að auka á þessa virkni er endurtekning mikilvæg, þannig lærir líkaminn.

 

Bandvefur er magnað fyrirbæri

Annar mikilvægur hlekkur þegar kemur að teygjum er bandvefur (fascia). Bandvefurinn er ótrúlega magnað fyrirbæri sem hefur fengið of litla athygli. Síðastliðin 10 ár hefur fólk þó verið að átta sig á mikilvægi hans og er mikið verið að rannsaka hann. Bandvefurinn er eins og net sem umlykur allt í líkamanum. Hann á að vera mjúkur og blautur, enda að mestu leyti vatn. Bandvefurinn gerir okkur kleift að hreyfa okkur með því að láta vöðva og líffæri renna með hvert öðru.

Óheilbrigður bandvefur getur myndað viðloðun eða klístur og orðið óhreyfanlegur af ýmsum orsökum, til dæmis við of mikið álag, einhæfar hreyfingar eða hreyfingarleysi. Bandvefurinn verður þá þykkur og þurr sem veldur því að hann tapar sveigjanleika, festist við undirliggjandi vöðva, hindrar blóðflæði, minnkar getu sogæðakerfisins til að losa líkamann við úrgang og takmarkar hreyfigetu.

 

Teygjur eru mikilvægar

Niðurstaðan er því sú sama, teygjur eru mikilvægar. Að viðhalda eðlilegri hreyfigetu líkamans er líklega dýrmætara fyrir heilsuna þína en þú heldur. Ég heyri fólk mjög gjarnan segja að það geti ekki komið í jóga eða geti ekki teygt því það sé svo stirt, en þess þá heldur er það enn mikilvægara til að sporna við stirðleika og aðstoða líkamann við að vera í sínu heilbrigðasta formi. Teygðu!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.