Hvatning frá Gyðu Rán

eftir Gyðu Rán Árnadóttur

Gyða Rán, sjúkraþjálfari

Þetta eru skrýtnir tímar sem við erum stödd á.

Fyrir suma er þetta spurning um að staldra við heima hjá sér, komast ekki í vinnu vegna hópaskiptinga, geta ekki hitt vini og vandamenn, eða hreinlega að geta ekki rúntað um Smáralind og viðhaldið neyslubrjálæðinu sem á sér stað í okkar veröld í dag.

En fyrir aðra er þetta spurning um að þrauka verkefni, önnur en þau sem Covid-19 vírusinn er að hrjá okkur með. Lífið stoppar ekki fyrir alla. Sérstaklega ekki einstaklinga sem hafa greinst með krabbamein og aðra lífsógnandi sjúkdóma á þessum örlagaríku Covid-tímum.

Óvissan er mikil, aðgengi að læknisþjónustu að einhverju leyti takmarkaðri og eins aðgengi að endurhæfingarúrræðum.

Ljósið er staður sem enginn vill þurfa að fara á en ég hugsa að flestir sjái ekki eftir að hafa heimsótt þegar þörfin hefur sótt að.

Starfandi sem sjúkraþjálfari hjá Ljósinu gefur mér innsýn inn í hvernig þetta ár hefur lagst í fólk og maður getur með sanni sagt að það verða margir sem vilja að þetta ár klárist. En þar til yfirstandandi ógn er liðin hjá ætlum við að vinna saman að því að komast í gegnum þetta. Samstaðan þarf að vera meiri nú en nokkurn tímann fyrr. Nú þegar ekki er hægt að stunda sína reglubundnu endurhæfingu í húsakynnum Ljóssins í einhvern tíma verðum við að gæta að því að rútínan fari ekki öll út og suður, og gerum okkar besta að hlúa að okkur á þann veg sem hægt er.

Gerum það sem við getum fyrir hvert annað!

Hringjum í félagana sem við höfum skapað í Ljósinu og heyrum hvernig þeim gengur heima við. Hvetjum hvert annað til að fá okkur göngutúr, þótt að það gæti verið rigning þann daginn. Hrósum hvert öðru fyrir að gera okkar besta þó okkur sjálfum finnist það ekki alltaf vera nóg til. Tökum skype-æfingu með vinkonu, með því að nota eigin líkamsþyngd. Verum dugleg að senda hvert öðru brandara eða eitthvað gleðilegt til að brosa yfir. Munum að jólin og hátíð þakklætis er rétt handan við hornið, og eins og hún Pollýanna vinkona okkar sagði; það er alltaf hægt að finna eitthvað til að vera þakklátur fyrir, svo lengi sem við leitum að því. Minnum okkur á að þótt að við missum einhverja daga úr okkar stífa prógrammi þá þýðir það ekki að við séum stopp í okkar vegferð, heldur förum við bara aðeins hægar yfir. Endurhæfingin er langtímavegferð en ekki sprettur.

Hægjum á okkur og róum hugann, leyfum núvitundinni að taka yfir þegar framtíðin er óráðin.

Haldið áfram að vera dugleg eins og þið eruð búin að vera, þið sem skjólstæðingar okkar eruð okkur starfsfólkinu mikill innblástur til að vinna betur og læra meira um okkar fag. Þið gefið okkur þakklæti og gleði fyrir að fá að mæta í vinnuna okkar.

Kveðja,

Gyða Rán
Sjúkraþjálfari

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.